Íslenskt hvalkjöt óvelkomið til Rotterdam

Hafnaryfirvöld í Rotterdam í Hollandi hafa beðið skipafélög og hafnarstarfsmenn um að hætta að umskipa íslensku hvalkjöti um hafnarsvæðið. Í fréttatilkynningu, sem var send út í gær, segja hafnaryfirvöld að eina skipafélagið sem hafi flutt íslenskt hvalkjöt muni nú láta af því.

Fram kemur, að lögum samkvæmt sé ekki hægt að banna flutning á hvalkjöti. Gámar með frosnu kjöti verði hins vegar hafnarsvæðinu í skamman tíma, á tollfrjálsu svæði, en fari ekki inn á hollensk landssvæði með formlegum hætti.

Hafnaryfirvöld í Rotterdam segjast gera þetta vegna mótmæla almennings og stjórnvalda sem beinast gegn hvalveiðum. Þar af leiðandi hafi skipafélög verið beðin um að hætta að flytja kjötið til Rotterdam.

Í tilkynningunni segir, að á ársgrundvelli sé um það bil 50 gáma frá Íslandi að ræða, sem á svo að flytja á Japansmarkað.

Þá hvetja hafnaryfirvöld í Rotterdam önnur hafnaryfirvöld í Evrópu til að bregðast við svipuðum hætti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert