Fast á hæla Grikkjum og Írum

mbl.is/Eggert

Útgjöld til heilbrigðismála jukust nokkuð ört hér á landi á seinasta áratug en eftir 2008 urðu mikil umskipti og er Ísland í hópi ríkja innan OECD þar sem heilbrigðisútgjöldin drógust mest saman á árunum 2010 og 2011 í kjölfar kreppunnar og aukins aðhalds og niðurskurðar.

Í nýjum samanburði OECD á stöðu heilbrigðismála í aðildarríkjunum, OECD Health Data 2013, kemur fram að 2010-2011 minnkuðu útgjöld til heilbrigðismála að raungildi í tíu löndum, mest á Grikklandi og Írlandi en Ísland er hið þriðja í röð landa þar sem samdráttur varð. Áframhaldandi vöxtur var hins vegar á útgjöldum til heilbrigðismála í 22 ríkjum á þessum árum þó verulega hafi dregið úr honum miðað við vöxtinn á umliðnum áratug.

Drógust saman um 7,5% 2010 og stóðu í stað á árinu 2011

Heilbrigðisútgjöld jukust árlega að raungildi um rúmlega 3% að jafnaði hér á landi frá 2000 til 2009. Að meðaltali nam árlegur vöxtur útgjalda til heilbrigðismála í OECD löndunum um 5% á þessu tímabili. Útgjöldin hér á landi drógust hins vegar saman um 7,5% á árinu 2010 og stóðu í stað 2011.

Ef heilbrigðisútgjöldin eru skoðuð sem hlutfall af vergri landsframleiðslu kemur í ljós að þau voru að meðaltali um 9% af landsframleiðslu hér á árinu 2011 og lækkaði hlutfallið frá árinu á undan þegar það var 9,3%. Var Ísland í 19. sæti meðal OECD landanna þegar þessi mælikvarði er notaður á heilbrigðisútgjöldin, og nokkuð undir meðaltali OECD.

Sé hins vegar útgjöldum til heilbrigðismála deilt niður á íbúana er samanburðurinn örlítið hagstæðari, þó Ísland sé enn undir meðaltali OECD. Útgjöldin hér á landi skv. samanburði OECD, umreiknuð í bandaríkjadali og reiknuð á svonefndu jafnvirðisgildi að teknu tilliti til mismunandi kaupmáttar í hverju landi, voru 3.305 Bandaríkjadalir á hvern Íslending á árinu 2011. Það samsvarar rúmlega 400 þúsund krónum á mann miðað við gengi í loks þess árs. Þar er Ísland lítið eitt undir meðaltali OECD landanna.

Útgjöld á mann voru mest í Bandaríkjunum (8.508 Bandaríkjadalir), í Noregi, Sviss og Hollandi.

Hér á landi er langstærsti hluti útgjalda til heilbrigðismála greiddur af hinu opinbera eða 80,4%.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert