Kristín forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands

Kristín Björg Albertsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands.
Kristín Björg Albertsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur skipað Kristínu Björgu Albertsdóttur forstjóra Heilbrigðisstofnunar Austurlands frá 1. júlí til fimm ára, að undangengnu mati hæfnisnefndar. Alls voru ellefu umsækjendur um embættið.

 Niðurstaða hæfnisnefndar var að tveir úr hópi umsækjendanna væru hæfastir til að gegna embættinu og var Kristín Björg annar þeirra. Hæfnisnefndin er skipuð samkvæmt 9. gr. laga um heilbrigðisþjónustu. Í henni sitja þrír fulltrúar með þekkingu á rekstri, starfsmannamálum, stjórnsýslu og heilbrigðisþjónustu. Engan má skipta til starfa nema hæfnisnefndin hafi talið hann hæfan.

 Kristín Björg er fædd árið 1963. Hún lauk prófi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 1987. Síðar hóf hún nám í lögfræði við sama skóla og lauk MA-prófi í lögfræði árið 2008.

 Kristín Björg hefur starfað innan Heilbrigðisstofnunar Austurlands í um það bil tíu ár. Hún var deildarstjóri heilsugæslu við Heilbrigðisstofnunina Egilsstöðum 1998–2002, starfaði við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri 1994–1997, hjúkrunarforstjóri Heilbrigðisstofnunarinnar Egilsstöðum í afleysingum 1993–1994, hjúkrunarforstjóri heilsugæslu Heilbrigðisstofnunarinnar Seyðisfirði 1990–1993 og hjúkrunarforstjóri Heilsugæslunnar Fáskrúðsfirði 1987–1988. Kristín hefur einnig starfað á slysadeild Borgarspítalans og á árunum 2003–2008 vann hún með námi við Læknavaktina í Kópavogi.

 Síðastliðið eitt og hálft ár hefur Kristín Björg starfað sem sviðsstjóri fasteignasviðs þjóðkirkjunnar en áður hjá sýslumanninum í Reykjavík, árin 2008–2012.

 Aðrir umsækjendur um embætti forstjóra voru:

Arnbjörg Sveinsdóttir

Bjarni Kr. Grímsson

Daði Einarsson

Elín Björg Ragnarsdóttir

Guðjón Hauksson

Guðmundur Helgi Sigfússon

Hallgrímur Axel Tulinius

Svava Ingibjörg Sveinbjörnsdóttir

Valdimar O. Hermannsson

Þórhallur Harðarson

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert