Sakfelldur fyrir stórfellda líkamsárás

Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði
Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði mbl.is/Ómar

Héraðsdómur Reykjaness hefur sýknað karlmann af ákæru um tilraun til manndráps en maðurinn var hins vegar sakfelldur fyrir stórfellda líkamsárás. Maðurinn var dæmdur í 18 mánaða fangelsi en 15 mánuðir eru bundnir skilorði.

Þá var refsing mannsins lækkuð með vísan til þess að brotaþoli hefði átt upptökin að átökunum sem brutust út.

Í dómi héraðsdóms segir, að hluti refsingarinnar hafi verið skilorðsbundinn þar sem maðurinn hefur snúið lífi sínu til betri vegar og um eitt og hálft ár er frá því brotið átti sér stað. Maðurinn var einnig dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar, samtals um 1,8 milljónir kr., og til að greiða brotaþola 800 þúsund kr. í miskabætur.

Ríkissaksóknari ákærði manninn 6. febrúar 2013 fyrir tilraun til manndráps, með því að hafa í Kópavogi aðfaranótt 3. febrúar 2012, í veist að öðrum manni í með hnífi, sem var með 8 sm löngu hnífsblaði. Hann var ákærður fyrir að reka hnífinn í tvígang í framanverðan kviðinn á manninum og í kjölfarið stungið hann í hægri síðu með þeim afleiðingum að lífshættulegur áverki hlaust af.

Neitaði að hafa ætlað að bana manninum

Maðurinn játaði fyrir dóminum að hafa stungið hinn manninn en hann neitaði því að ásetningur hefði staðið til að bana honum. Hann krafðist sýknu á grundvelli laga um neyðarvörn. Hannkveðst hafa óttast um líf sitt og unnustu sinnar en brotaþoli hafi verið miklu stærri og þyngri en hann. Maðurinn segist hafa verið í lélegu ástandi vegna fíkniefnaneyslu og ekki geta varist.

Í dómi héraðsdóms segir, að þegar framburður vitna og ákærða fyrir dóminum og lögreglu sé metinn, og þá sérstaklega brotaþola sjálfs, telji dómurinn sannað að maðurinn hafi orðið fyrir árás brotaþola áður en til hnífstungunnar kom. Ákærði taldi sig vera borinn ofurliði og árásarmaðurinn miklum mun stærri en ákærði, enda ákærði kominn á hækjur sér og varðist spörkum og höggum þegar hann tók upp hnífinn.

„Telur dómurinn ósannað, þegar á allt er litið, að ásetningur ákærða hafi staðið til að svipta brotaþola lífi. Ákærði reyndi sannanlega að flýja brotaþola en lenti í ógöngum. Er varhugavert að fullyrða að ákærði hafi beitt hnífnum í þeim tilgangi að bana brotaþola eða að honum hafi hlotið að vera ljóst að stungan gæti leitt til bana. Er því ekki unnt að sakfella hann fyrir brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga,“ segir í dómnum.

Þá segir, að með af aðstæðum öllum verði þó að telja að ákærði hafi farið út fyrir takmörk leyfilegrar neyðarvarnar með því að beita hnífnum sér til varnar og veita brotaþola þá áverka sem lýst sé í ákæru. Verði ekki fallist á að árás brotaþola hafi gefið ákærða tilefni til svo harkalegra viðbragða sem raunin varð.

Hefur snúið við blaðinu

Þótti refsing mannsins hæfilega ákveðin fangelsi í átján mánuði. Tæpt eitt og hálft ár er liðið frá því brotið átti sér stað og kveðst maðurinn kveðst vera hættur neyslu fíkniefna, þó svo engin vottorð hafi verið lögð fram því til staðfestu. Þá er hann í fastri launaðri vinnu kominn í sambúð og á von á barni í sumarmeð sambýliskonu sinni.

„Þykir dóminum rétt með vísan til þessa að skilorðsbinda fimmtán mánuði refsingarinnar,“ segir í dómi Héraðsdóms Reykjaness.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert