Úr arfabeði í fallegan garð

Heiðdís Inga, Sigrún Harpa, Snæfríður, Arna Rún og Stella Björk …
Heiðdís Inga, Sigrún Harpa, Snæfríður, Arna Rún og Stella Björk í garðinum Styrmir Kári

„Við erum að taka þetta svæði í gegn,“ segir Snæfríður Ólafsdóttir. Hún, ásamt Örnu Rún Gústafsdóttur, Sigrúnu Hörpu Þórarinsdóttur, Heiðdísi Ingu Hilmarsdóttur og Stellu Björk Hilmarsdóttur fengu styrk frá Reykjavíkurborg til að taka í gegn svæði sem hafa orðið útundan í borgarlandinu. Hópurinn fékk lítinn garð í Grjótaþorpinu til að vinna með. 

Garðurinn lætur lítið fyrir sér fara og hefur lengi verið í órækt. Hann er aðgengilegur frá tveimur stöðum, um göng gegnum Garðastræti 21 og milli Mjóstrætis 6 og 10.

Verkefnið nefnist Torg í biðstöðu - Biðsvæði. Hópurinn er einn af 12 hópum sem fengu svæði til umsjónar í sumar. Verkefnið segja þær umfram allt hönnunarverkefni, en garðyrkjuverkefni til hliðar.

„Sambærileg verkefni hafa verið við Baldursgötu, á Óðinstorgi, Ingólfstorgi, Hlemmi, Fógetagarðinum, í Árbænum, Breiðholti og á tveimur svæðum í kringum okkur,“ segir Arna Rún. „Þetta snýst um að finna svæðunum nýjan tilgang og virkja þau. Hérna er mikilvægt að vinna náið með íbúunum.“

„Það er gaman hvað íbúarnir eru virkir,“ segir Heiðdís Inga. „Þeim þykir vænt um þetta svæði og vilja að garðurinn verði nothæfur aftur.“ Snæfríður segir að íbúarnir hafi margir hverjir ekki viljað að börnin sín væru í garðinum af ótta við að þau myndu stinga sig á sprautunálum eða þaðan af verra.

Var í algjörri órækt

Sigrún Harpa segir að garðurinn hafi verið í algjörri órækt þegar þær komu þangað fyrst, eins og sjá má af myndum á tumblr-síðu stúlknanna,. „Við erum búnar að rífa burt helling af arfa og illgresi,“ segir Sigrún Harpa. „Illgresið var næstum á hæð við okkur,“ segir Heiðdís. „Það er samt gaman hvað þetta svæði býður upp á mikið. Það eru falleg tré hérna og þetta er frekar stórt svæði á besta stað í miðborginni.“

Á síðunni má sjá myndir af því hvernig garðurinn leit út þegar stelpurnar komu fyrst í hann, en það er óhætt að segja að breytingarnar á honum hafa verið mjög miklar.

Þær segjast hafa rætt við íbúa í kringum garðinn, sem margir hafi búið þar í kring um áratuga skeið, auk þess sem blásið var til garðveislu og íbúarnir hvattir til að aðstoða við tiltekt í garðinum.

„Þetta svæði getur nýst íbúunum og líka gestum miðborgarinnar og fólk mikið að ganga hérna í gegn,“ segir Sigrún Harpa. „Það er eins og fólk geri sér ekki grein fyrir því að þetta sé opið svæði en gerir sér vonandi betur grein fyrir því þegar þetta er orðinn fallegur garður.“

Hönnunarverkefni frekar en garðyrkjuverkefni

„Tilgangur verkefnisins er samt ekki að hreinsa garðinn og reita arfa, heldur að finna honum nýjan tilgang og vekja athygli á honum og koma með eitthvað nýtt í hann,“ segir Arna Rún. „Okkur fannst við samt þurfa að byrja á smá hreinsun.“ Þær segjast hafa fundað í mánuð til að leggja á borð hugmyndir um framtíð svæðisins. „Við áætlum að ljúka þessu í byrjun ágúst. Þá á allt að vera komið á sinn stað og þá byrjar tilraunin um hvort þetta virki og hvort það sé einhver áhugi meðal íbúanna á svæðinu að halda því við með stuðningi borgarinnar, því borgin á jú landið.“

Stúlkurnar segjast hafa sótt saman um að fá garð til að vinna með. Þær þekktust allar áður en verkefnið hófst, en Heiðdís og Stella eru systur. Menntun þeirra fimm er mjög mismunandi. Heiðdís er stúdent frá MH og hefur sótt hönnunarnám við Tækniskólann, Sigrún Harpa er með BA-gráðu í arkitektúr, Snæfríður er stjórnmálafræðingur í þróunarfræðinámi, Arna Rún er grafískur hönnuður og Stella er með BA-gráðu í listfræði auk þess að hafa stundað hönnunarnám við Tækniskólann. „Þessi mismunandi bakgrunnur okkar hefur hjálpað til við verkefnið. Það er alveg að skila sér,“ segja þær.

„Þerapísk“ hliðarverkefni með vinnu

Þær segjast stunda vinnuna í garðinum samhliða sinni vinnu, þó svo að verkefnið bjóði alveg upp á að sinna því í fullu starfi. „Við fáum styrk sem við ákveðum sjálfar hvernig við notum,“ segir Arna Rún. „Það er líka ótrúlegt hvað garðvinna er þerapísk og gefandi og gaman að sjá hvað mikið getur breyst á stuttum tíma.,“ segir Stella Björk og hlær. 

„Eitt markmiðið hjá okkur er eins og við sögðum að virkja íbúa og gera þetta svolítið að þeirra, auk þess sem við viljum tengja þetta við sögu Grjótaþorpsins af því það er frá svo mörgu að segja.“

Stúlkurnar segja að hugmyndavinnu sé mestmegnis lokið, en verkið taki sífelldum breytingum meðan á því stendur. „Við ætlum til dæmis að setja upp bekk hérna sem verður þannig að það sé ekki hægt að sofa á honum,“ segir Arna Rún, en útigangsfólk hafi gjarnan gert bekk í garðinum sér að næturstað áður en hann var fjarlægður. „Bekkurinn sem við erum að hanna verður þannig að það séu í rauninni sæti með borðum á milli þannig að það verði ekki hægt að sofa á honum.“

Hitapottur þegar það blæs í borginni

Veðurfar í garðinum segja stúlkurnar einstakt. Þar sé skjól jafnvel þótt blási í þarnæstu götu.  „Við vorum að vinna hérna á 17. júní, þá var alveg stilla hérna og ótrúlega heitt. Þegar fólk kom hingað þá var hrollur í þeim. Það eina sem við urðum vör við frá hátíðarhöldunum var bassinn í Sigmundi Davíð“ segir Stella Björk. „Svo eru ýmsar aðrir hugmyndir sem við erum með í gangi fyrir garðinn, en þær þurfa aðeins að fá að koma í ljós,“ segir Sigrún Harpa. 

Þær segja að íbúasamtökin í Grjótaþorpi hafi sett sig í samband við þær og boðið fram aðstoð sína. „Íbúarnir hérna í kring hafa lýst yfir ánægju sinni við okkur þegar þeir eiga leið hérna um,“ segir Heiðdís. Arna Rún segir garðinn hugsaðan fyrir íbúana, en ekki fyrir fólk úti á lífinu um helgar í miðborginni. „Við ætlum að gera garðinn þannig að hann verði ekki útsettur fyrir því.“

Stúlkurnar munu reglulega setja inn myndir á tumblr-síðu sína svo að hægt verði að fylgjast með hvernig verkefnið þróast. 

Kort af Grjótaþorpinu. Garðurinn er appelsínugulur á myndinni
Kort af Grjótaþorpinu. Garðurinn er appelsínugulur á myndinni
Litið yfir garðinn
Litið yfir garðinn Styrmir Kári
Stígurinn sem hér sést var falinn undir gróðri áður en …
Stígurinn sem hér sést var falinn undir gróðri áður en stúlkurnar tóku til hendinni Styrmir Kári
Styrmir Kári
Hér sést hvernig svæðið kringum hinn nýfundna stíg leit út …
Hér sést hvernig svæðið kringum hinn nýfundna stíg leit út áður en tiltektin hófs
Styrmir Kári
Styrmir Kári
Frá því blaðamaður heimsótti garðinn síðasta föstudag hafa stúlkurnar tyrft …
Frá því blaðamaður heimsótti garðinn síðasta föstudag hafa stúlkurnar tyrft svæðið kringum tré í garðinum
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert