Vann málið gegn Alcan

Álverið í Straumsvík
Álverið í Straumsvík Ljósmynd/Alcan

Héraðsdómur Reykjaness viðurkenndi í dag rétt Dagbjartar Steinarsdóttur til skaðabóta úr hendi Rio Tinto Alcan á Íslandi hf. og Vátryggingafélagi Íslands hf. vegna líkamstjóns sem hún hlaut við vinnu sína fyrir Alcan í álverinu í Straumsvík.

Þann 20. júní 2007 varð Dagbjört fyrir vinnuslysi í álverinu í Straumsvík, þá 19 ára gömul, en þar hafði hún starfað í tæpan mánuð. Í dómnum kemur fram að aðila máls greini ekki á um það með hvaða hætti slysið varð, en það varð með þeim hætti að stefnanda var falið að ganga frá mótabotni með krana inni á mótabotnalager í steypuskála álversins.

Varð fyrir 14 tonna mótabotni

Þegar hún ætlaði að hífa botninn, sem vegur um 14 tonn, lyftist botninn, færðist til og frá og lenti á Dagbjörtu, sem stóð á milli mótabotnsins og árekstrargrindverks og klemmdist illa á mjaðmagrind.

„Dagbjört hlaut mikla áverka við þetta og glímir enn við ýmsa líkamlega kvilla vegna slyssins,“ segir Diljá Mist Einarsdóttir, lögmaður Dagbjartar. „Í málinu voru lögð fram vottorð sjúkraþjálfara, hnykkjara og bæklunarlæknis um áverka Dagbjartar og taldi dómurinn að sýnt hefði verið fram á orsakatengsl milli slyssins og líkamstjóns Dagbjartar.“

Höfnuðu bótaskyldu í málinu

Þar sem VÍS og álverið höfnuðu bótaskyldu í málinu þá neituðu þeir að taka þátt í að láta meta líkamstjón Dagbjartar vegna slyssins. Því var farin sú leið að höfða mál þar sem krafist var viðurkenningar á bótaskyldu þeirra. 

Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að viðurkenndur var réttur Dagbjartar til skaðabóta úr hendi álversins (Rio Tinto Alcan á Íslandi hf.) og VÍS vegna líkamstjónsins sem hún hlaut í slysinu og voru álverið og VÍS dæmd til greiðslu málskostnaðar.

„Niðurstaða dómsins er afdráttarlaus og vel rökstudd, en dómurinn hafnar m.a. varakröfu stefndu um sakarskiptingu þannig að Dagbjört hefði þurft að bera hluta tjónsins sjálf,“ segir Diljá Mist.

Ósannað að leiðbeiningar hafi verið nægilegar

Að sögn Diljár byggir dómurinn niðurstöðuna sína á því að hann taldi ósannað að Dagbjört hefði fengið viðhlítandi leiðbeiningar til starfs síns og um þá hættu er fólst í því, þrátt fyrir að álverinu hefði verið eða hefði mátt vera kunnugt að hættan væri fyrir hendi.

Dómurinn taldi þær leiðbeiningar sem Dagbjört taldist þó hafa fengið vera almennar og ófullnægjandi miðað við það verk sem hún vann umrætt sinn. Dómarinn í málinu fór á vettvang slyssins til að kanna aðstæður þar. Niðurstaðan var sú að verkstjórn Alcan hefði verið ófullnægjandi og bæri álverið alla ábyrgð á því og þótti hafa sýnt af sér saknæma háttsemi með vanrækslu sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert