Fyrirkomulag Landsdóms vandmeðfarið

Andri Árnason varði Geir H. Haarde í Landsdómsmálinu.
Andri Árnason varði Geir H. Haarde í Landsdómsmálinu. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Þetta er að einhverju leyti pólitísk ráðstöfun,“ segir Andri Árnason lögfræðingur um fyrirætlanir Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra um að leggja af Landsdóm, en Andri varði Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, í Landsdómsmálinu.

„Landsdómsfyrirkomulagið er mjög vandmeðfarið og þess vegna á það kannski ekki rétt á sér. Þetta hefur ákveðna kosti en auðvitað galla líka. Af þeirri reynslu sem maður hefur af Landsdómi finnst mér mjög vandmeðfarið að gera greinarmun á pólitískum sjónarmiðum og lögfræðilegum sem gerir það kannski að verkum að það sé allt eins gott að leggja þetta bara af,“ segir Andri.

Aðspurður segir Andri óljóst hvort þörf sé á að breyta stjórnarskránni. 

„Stjórnarskráin gerir ráð fyrir að svona fyrirkomulag sé við lýði; að það sé kveðið á um ráðherraábyrgð í lögum og að ákveði Alþingi að ákæra ráðherra fyrir ráðherrabrot þá dæmi Landsdómur í slíkum málum. Andi stjórnarskrárinnar er sem sagt sá að málið fari í þennan farveg og meginreglan er sú að almenni löggjafinn fylgi þeim línum sem stjórnarskráin mælir fyrir um,“ segir Andri.

Hann heldur áfram og segir: „Stundum lætur stjórnarskráin hins vegar almenna löggjafanum eftir að ákveða fyrirkomulag og aðra þætti og má segja að almenni löggjafinn geti í miklum mæli stýrt því bæði út á hvað ráðherraábyrgð gangi og hvernig Landsdómsfyrirkomulagið sé. Menn þyrftu því að skoða það hvort almenni löggjafinn ætti ekki að nýta sér þetta fyrirkomulag eða hvort stjórnarskrárbreytingu þurfi til að leggja þetta af.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert