„Ég er bæði þreyttur og glaður“

René Kujan var ánæður þegar hann hljóp niður í fjöru …
René Kujan var ánæður þegar hann hljóp niður í fjöru við Kötlutanga.

 „Ég er bæði þreyttur og glaður. Það er gott að þurfa ekki að hlaupa á morgun,“ segir tékkneski blaðamaðurinn René Kujan í samtali við mbl.is stuttu eftir að hann lauk 13 daga hlaupi yfir hálendi Íslands.

René lagði af stað 18. júní frá Rifstanga, sem er nyrsti tangi landsins og hann lauk ferðinni í kvöld á syðsta tanga landsins, Kötlutanga.

Mótvindur mest alla leiðina

„Þetta er búið að vera talsvert erfitt. Það sem var erfiðast var vindurinn. Stundum var talsvert hvasst og það var sunnanátt allan tímann þannig að ég var alltaf með mótvind, stundum mikinn og stundum lítinn. Ég þurfti að halda kyrru fyrir í heilan dag vegna slæms veðurs,“ segir René.

René segist hafa reiknað með að erfitt yrði að komast yfir sumar árnar, en þær hafi ekki reynst neinn farartálmi. Vatnið hafi hvergi náð upp fyrir hné.

René segist hafa vonast eftir að hann myndi hitta einhvern á leiðinni sem væri til í að hlaupa með sér hluta leiðarinnar, en hann hafi ekki hitt neinn. „Ég rakst ekki á neinn og enginn hljóp með mér. Ætli það séu margir á ferð um hálendið sem eru eins vitlausir eins og ég?“ segir René og glottir.

René segist hafa hlaupið mestalla leiðina, samtals um 600 km. Hann segir þó að þegar rokið var sem mest hafi hann gengið og eins hafi hann gengið þegar hann þurfti að fara upp erfiðar brekkur.

„Lengsta dagleiðin mín var á Sprengisandi, en þá hljóp ég 90 km. Þegar ég kom niður í Mýrdal var ég búinn að hlaupa 30 km, en þá lagði ég mig í þrjá tíma og hljóp svo 60 km til viðbótar. Ástæðan fyrir því að ég hljóp svona langt þennan dag var sú að ég var búinn að fá upplýsingar um að von væri á mjög hvössum vindi, meira en 20m/sek. Ég vissi að ég myndi ekki geta hlaupið í svo slæmu veðri svo ég ákvað að hlaupa áfram áður en veðrið versnaði,“ segir René.

Í dag, síðustu dagleiðina, hljóp René 40 km. Það tók hann um fimm og hálfan tíma.

Þetta er í sjötta skiptið sem René kemur til Íslands. Í fyrra hljóp hann kringum landið á 30 dögum. Það verkefni kallaði hann „Einn maður- 30 dagar - 30 maraþon“.

Nær dauða en lífi eftir bílslys

René á að baki erfiða lífsreynslu en hann lenti í alvarlegu bílslysi fyrir sex árum síðan. „Ég sat í farþegasæti við hlið bílstjórans. Þetta var mjög alvarlegt slys. Það munaði litlu að ég léti lífið. Mörg rifbein brotnuðu í slysinu, bringubeinið brotnaði og mænan skaddaðist. Ég var með fjórar skrúfur við mænuna meðan ég var að gróa sára minna.

Í rauninni var ég mjög heppinn. Í fyrstu sögðu læknar mínir mér að ég myndi aldrei getað hlaupið aftur. Þeir höfðu sem betur fer rangt fyrir sér. Ég var í endurhæfingu í hálft ár og á þeim tíma kynntist ég mörgum sem voru í hjólastól og voru ekki eins heppnir og ég. Ég fann fyrir löngun til að reyna að hjálpa þeim sem voru ekki eins heppnir og ég.“

René hefur náð ótrúlegum bata. Þeir sem sjá hann hlaupa geta tæplega greint að þar fari maður sem lá við dauðans dyr fyrir sex árum, með alvarlega mænuskaða.

Hljóp til til styrktar Hollvinum Grensásdeildar og Íþróttasambandi fatlaðra

René hljóp með allan farangur, tjald, svefnpoka, mat, nauðsynjar og öryggistól í barnavagni á þremur hjólum. Ferðina fór fór hann til styrktar Hollvinum Grensásdeildar og Íþróttasambandi fatlaðra.

Fyrir þau sem áhuga hafa á að styðja við þessi góðu málefni, en öll framlög renna 100% til þeirra,  þá er einföld leið að hringja í eftirfarandi símanúmer og upphæðin tengd því símanúmeri verður þá gjaldfærð á símareikning þess/þeirrar sem hringir: 908 7997 - 1000 kr. / 908 7998 - 2000 kr. / 908 7999 - 5000 kr.

Einnig er tekið á móti frjálsum framlögum á bankareikning Hollvina Grensásdeildar 311-22-000818, kt. 670406-1210;  og Íþróttasambands fatlaðra 313 – 26-  4396,  kt. 620579-0259.

René Kujan stórslasaðist í bílslysi fyrir sex árum síðan. Læknar …
René Kujan stórslasaðist í bílslysi fyrir sex árum síðan. Læknar sögðu þá að hann myndi aldrei geta hlaupið aftur.
René hlóp aleinn yfir hálendið með allan farangur sinn.
René hlóp aleinn yfir hálendið með allan farangur sinn.
René lagði af stað 18. júní og komst á leiðarenda …
René lagði af stað 18. júní og komst á leiðarenda í kvöld.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert