Eva fær aðgang að skýrslunni

Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn.
Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn. mbl.is/Júlíus

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur komist að þeirri niðurstöðu að lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins beri að veita Evu Hauksdóttur aðgang að hluta til að skýrslu Geirs Jóns Þórissonar, fyrrverandi yfirlögregluþjóns, um Búsáhaldabyltinguna.

Geir Jón tók saman skýrslu um atburðina sem urðu í lok árs 2008 og byrjun árs 2009 þegar búsáhaldabyltingin svokallaða átti sér stað, en hann sagði frá efni skýrslunnar á fundi sl. haust. Eva óskaði eftir að fá að sjá skýrsluna, en lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafnaði því. Eva kærði þá ákvörðun til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Í úrskurði nefndarinnar segir að nefndin fái ekki séð að skýrslan geti talist undirbúningsgagn í skilningi 8. gr. upplýsingalaga. Þannig verði ekki ráðið af skýrslunni, né af öðrum gögnum málsins, að henni hafi verið ætlað að undirbúa ákvörðun eða aðrar lyktir máls innan lögreglunnar. Vegna þessarar ástæðu fellst úrskurðarnefndin ekki á það með lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu að skýrslan teljist vinnugagn.

Nefndin segir að við mat á því hvort skýrslan hafi að geyma upplýsingar sem falla undir undantekningarákvæði 9. gr. upplýsingalaga beri að líta til þess hvaða persónuupplýsingar teljast vera viðkvæmar. Það er skilgreint í lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, en þar segir að meðal slíkra upplýsinga séu m.a. upplýsingar um stjórnmálaskoðanir, svo og trúar- eða aðrar lífsskoðanir, en það getur átt við um upplýsingar sem skráðar eru um menn sem taka þátt í mótmælum gegn stjórnvöldum. Þá segir ennfremur að viðkvæmar séu upplýsingar um það hvort maður hafi verið grunaður, kærður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað, en það getur átt við um upplýsingar sem unnar eru úr dagbókum og málaskrám lögreglu.

„Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur farið yfir umrædda skýrslu og felst á það mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að hún hafi að geyma upplýsingar sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari, sbr. 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Af þessari ástæðu er það niðurstaða nefndarinnar að lögreglustjóranum hafi verið rétt að synja kæranda um aðgang að skýrslunni í heild sinni.“

Fram kemur að á einum stað í umræddri skýrslu sé að finna sérstaka umfjöllun um samskipti lögreglunnar við Evu. Umfjöllunin er afmörkuð og vel aðgreinanleg frá öðrum hlutum skýrslunnar án þess að samhengi textans raskist. Er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu sé rétt, á grundvelli 14. og 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, að afhenda kæranda afrit af þessum hluta skýrslunnar, svo sem afmarkað er með nánari hætti í úrskurðarorði.

Eva Hauksdóttir tók þátt í Búsáhaldabyltingunni.
Eva Hauksdóttir tók þátt í Búsáhaldabyltingunni. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert