„Ekkert til að hrópa húrra fyrir“

Þau Jórunn Pála Jónasdóttir hagsmuna- og lánasjóðsfulltrúi SHÍ, Ísak Rúnarsson …
Þau Jórunn Pála Jónasdóttir hagsmuna- og lánasjóðsfulltrúi SHÍ, Ísak Rúnarsson stúdentaráðsliði og María Rut Kristinsdóttir formaður SHÍ fóru fýluferð á Alþingi í gær. Jórunn Pála Jónasdóttir

„Ég hefði haldið að allir Íslendingar myndu sammælast um það að niðurskurður í menntamálum væri ekki mjög góður kostur, hann er í raun niðurskurður í mannauði,“ segir María Rut Kristinsdóttir, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands, um fyrirhugaðar breytingar á útlánareglum LÍN. „Með því að þrengja þennan lántakendahóp er einfaldlega verið að útiloka ákveðinn hóp þjóðfélagsins frá námslánum.“

María Rut segist efast um að breytingarnar, sem fela í sér lágmarkskröfu um 75% námsframvindu í stað 60% áður, skili raunverulegri hagræðingu. „Mér er farið að finnast þetta vera meiri stefnubreyting en niðurskurður,“ segir María Rut, en áætlað er að breytingarnar á útlánareglum LÍN spari 130 milljónir króna í ríkisrekstrinum. „Það er ekki mikill peningur í stóra samhenginu.“ Hún segist furða sig á þeirri forgangsröðun að flats niðurskurðar sé krafist fyrirvaralaust hjá LÍN meðan ráðherrum sé fjölgað og stjórnarmönnum RÚV sömuleiðis.

Lítið skref í rétta átt

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra sagði í umræðum á Alþingi í gær að krafan um einingafjölda myndi miðast við skólaár í stað annar. María Rut segir það vera lítið skref í rétta átt, en stúdentar hafi búist við meira svigrúmi. „Ef þú ert á námslánum og nærð ekki prófum um jólin færðu ekki lán fyrr en í júní. Ég hefði haldið að mann vantaði pening í janúar, ekki í júní. Einhvern veginn verður maður að lifa af þessa mánuði og ef maður fær ekki lán þá þarf maður að taka meiri yfirdrátt, sem er áframhaldandi áhættutaka. Þetta lagar heldur ekki einingakröfuna að því leyti að margir áfanganna eru 10 einingar, við vonuðumst til að krafan yrði lækkuð niður í 20 einingar. Þetta er ekkert til að hrópa húrra fyrir.“

Vanþekking ráðherra og stjórnarformanns LÍN

María Rut segir orð ráðherra um að hann gerir ráð fyrir að námsmenn séu í háskóla „af fullri alvöru“ og orð stjórnarformanns LÍN um að stúdentar sem ekki uppfylli 22 ECTS-eininga kröfuna þurfi að „herða sig“ bera vott um vanþekkingu á aðstæðum innan háskólans. Þá séu svör frá ráðuneytinu og LÍN ekki hughreystandi. „Þau svör sem við fáum yfirleitt eru þau að það sé ekki tími til að vinna þetta betur og það þurfi að keyra þetta í gegn. Þá hefði frekar átt að fresta breytingunum fram á áramót og vinna þetta þá almennilega í samráði við stúdenta og aðra hagsmunaaðila. Okkur bauðst í raun og veru að fresta breytingunum fram á áramót en fá þá enga grunnframfærsluhækkun þangað til, eða breyta núna og fá grunnframfærsluhækkun,“ útskýrir hún, en fyrirhuguð er 3% grunnframfærsluhækkun í samræmi við vísitölu. Þá segir hún ljóst að ekki verði af boðaðri hækkun frítekjumarks úr 750 þúsundum í 900 þúsund. „Þetta er þeirra sáttaleið, en við erum ekki sátt við þetta.“

Óvíst hvort undanþágur taki til fjölskyldufólks

María Rut segir jákvætt að hlustað hafi verið á kröfur um aukið svigrúm fyrir öryrkja og lesblinda, en óvíst sé hvort undanþágur þeim til handa taki líka til fjölskyldufólks. „Mér skilst að það sé til skoðunar.“ Mbl.is flutti fréttir af því í gærkvöldi að fulltrúar stúdenta hefðu farið fýluferð á Alþingi á fund allsherjar- og menntamálanefndar sem ekki varð af. „Eftir að við vorum send heim fékk ég tölvupóst frá einhverjum á skrifstofu Alþingis sem baðst afsökunar á að ekki skyldi hafa orðið af fundinum og sagðist myndu heyra í okkur í ágúst. Það er mjög lítill tilgangur með fundi í ágúst, stjórnarfundur LÍN verður á þriðjudaginn þar sem útlánareglurnar verða samþykktar og þess vegna þurftum við á þessum fundi að halda núna. Ég botna hvorki upp né niður í þessu.“

Samband evrópskra stúdenta (ESU) gaf í dag út tilkynningu þar sem tekið var undir gagnrýni íslenskra stúdenta, en þeir telja breytingar á LÍN geta skaðað menntakerfi landsins og haft alvarlegar afleiðingar til lengri tíma litið.

Aðalbygging Háskóla Íslands.
Aðalbygging Háskóla Íslands. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert