„Öfundsvert“ ástand fiskistofna

Sjávarútvegsráðherra hefur ákveðið að heildarafli þorsks á næsta fiskveiðiári verði 214,4 þúsund tonn. Leyfilegur afli flestra tegunda er aukinn og er áætlun þeirrar ákvörðunar um heildarafla sem hér greinir um 15 milljarða aukning á útflutningsverðmætum sjávarafurða. Þetta samsvarar um það bil 2,4% aukningu í útflutningsverðmætum vöru frá landinu að öðru óbreyttu.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í fréttatilkynningu.

Í tilkynningunni segir að almennt ástand fiskistofna á Íslandsmiðum verði að teljast býsna gott og „jafnvel öfundsvert“ samkvæmt nýjustu ástandsskýrslu Hafrannsóknastofnunar. Sú stefna hefur verið mörkuð um árabil að fylgja svo sem kostur er vísindalegri ráðgjöf og má fullyrða að það sé meginástæða þessa góða árangurs, segir í tilkynningunni. „Um þessa stefnu hefur verið vaxandi samstaða í þjóðfélaginu og ekki síst meðal flestra hagsmunaaðila.“

Í tilkynningu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um málið segir að það sé eftir sem áður mikilvægt að fara reglulega yfir hvaða aðferðum er beitt og eiga samtal við greinina sjálfa og aðra um rannsóknir og ráðgjöf. „Reynslan af langtíma nýtingarstefnu og aflareglu í þorski hefur fram að þessu verið mjög góð, þótt sumir hafi viljað fara hraðar í sakirnar. Á þessu ári er unnið að endurskoðun á þessari aflareglu og mun Hafrannsóknastofnun, án alls vafa, hafa um það samráð við hagsmunaaðila, svo sem mögulegt er. Til viðbótar má nefna sem þekkt er að nú er einnig í gildi langtíma nýtingarstefna með aflareglu fyrir ýsu og ufsa og eftir áramót er þess að vænta að Alþjóðahafrannsóknaráðið leggi formlegt mat á tillögu stjórnvalda um langtímanýtingarstefnu og aflareglu fyrir gullkarfa.“

Við ákvörðun heildarafla í þetta skiptið er gengið lengra í þessa átt en nokkru sinni fyrr og er ákvörðun fyrir stofna er lúta veiðistýringu með aflahlutdeild nú í reynd sú hina sama og ráðgjöfin. Það er mat ráðherra að mikilvægt sé að vísindaleg ráðgjöf sé leiðarljós okkar við þessa ákvarðanatöku.

Í tilkynningunni segir að það séu jákvæð tíðindi að leyfilegur heildarafli eykst í þorski, ýsu, ufsa, gullkarfa, þykkvalúru, sólkola, síld og löngu. Heildaraflinn stendur í stað eða lækkar lítillega í öðrum tegundum.

Áætluð áhrif þeirrar ákvörðunar um heildarafla sem hér greinir eru um 15 milljarða aukning á útflutningsverðmætum sjávarafurða. Þetta samsvarar um það bil 2,4% aukningu í útflutningsverðmætum vöru frá landinu að öðru óbreyttu.

Heildarafli í þorski, löngu og keilu er aðeins minni en ráðgjöf Hafró. Í þessum tegundum er að hluta tekið tillit til veiða Norðmanna og Færeyinga í lögsögunni. Ákvörðun um heildarafla í deilistofnum miðast við almanaksár og er hennar því ekki að vænta fyrr en í vetur og ákvörðun varðandi hrognkelsi er tekin í byrjun næsta árs. Leyfilegur heildarafli í grálúðu tekur mið af tvíhliðasamningi á milli Íslands og Grænlands um grálúðuveiðar. 

Ekki hefur verið gefinn út leyfilegur heildarafli fyrir rækju á djúpslóð (úthafsrækju) sl. þrjú ár og hafa veiðar á henni verið frjálsar. Á vormánuðum var ljóst að afli var kominn að ráðgjöf. Þó var ákveðið að veiðar skyldu ekki stöðvaðar fyrr en 1. júlí. Líkast til er umframveiði samanlagt á úthafsrækju og rækju frá miðunum við Snæfellsnes á þessu fiskveiðiári tæplega 40% umfram ráðgjöf og því er ljóst að bregðast þarf við að mati ráðuneytisins.

Fyrir liggur vilji sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að veiðarnar lúti stjórn að nýju. Viðfangsefnin því tengd eru flókin og eru nú til lögfræðilegar skoðunar. Af þessum sökum er ekki er gefinn út leyfilegur heildarafli í úthafsrækju að sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert