Segir skýrslu fulla af slúðri

Íbúðalánasjóður.
Íbúðalánasjóður. mbl.is/Golli

„Því miður hafa nefndarmenn fallið í þá gryfju að fylla hana af slúðri, gróusögum og hálfsannleik sem ásamt á köflum stórfurðulegum útleggingum gera skýrsluna því miður í heild ótrúverðuga,“ segir Guðmundur Bjarnason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs, um skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð í yfirlýsingu.

Guðmundur segir að skýrsluhöfundar hafi „mjög einkennilega nálgun á mörgum veigamiklum atriðum og setja fram órökstuddar og ósannar dylgjur, líkt og niðurstaðan hafi verið gefin fyrirfram.“ Nefnir hann sem dæmi ráðningarmál framkvæmdastjóra, „hreinar vangaveltur um ráðningar án auglýsinga og langt er seilst í að tengja menn saman með flóknum hætti að því er virðist í annarlegum tilgangi og jafnvel er dylgjað á auðvirðilegan hátt um samband manna sem koma ÍLS ekkert við. Og síðast en ekki síst eru látnir einstaklingar bornir sökum sem nú er sannað að ekkert var hæft í.“

Guðmundur segir athugasemdir sínar við skýrslu rannsóknarnefndarinnar í yfirlýsingunni hvergi nærri tæmandi enda af nógu að taka. Nefnir hann þó fjóra þætti sérstaklega: meint tap ÍLS, innkomu bankanna á íbúðalánamarkað, breytingar á verðbréfaútgáfu ÍLS og lausafjárstýringu með lánasamningum.

Tapið

Guðmundur skrifar að nefndin fullyrði að áætlað tap ÍLS frá 1999 – 2012 sé 270 milljarðar króna og „lætur liggja að því að þessir fjármunir séu nú þegar tapaðir. ÍLS hefur birt upplýsingar varðandi þetta meinta tap og telur það nema 64 milljörðum, fyrst og fremst vegna afleiðinga hrunsins. Sú fjárhæð er 7,3% af efnahagsreikningi ÍLS, sem var 876 milljaðar í árslok 2012,“ skrifar Guðmundur. Hann segir þetta í alla staði ónákvæmt og að allar áætlanir um 270 milljarða tap séu út í hött. „Því er nauðsynlegt að hlutlaus og trúverðugur einstaklingur fari yfir þessa meintu útreikninga og kynni hina réttu tölu fyrir Alþingi og alþjóð, en það átti reyndar að vera hlutverk rannsóknarnefndarinnar.“

Lánshlutfallið

Þá segir Guðmundur að ákvörðun stjórnvalda að hækka lánshlutfall ÍLS úr 65-70% í 90% hafi verið vel undirbúin og ígrunduð. Bankarnir hafi hins vegar vaðið hömlulaust áfram inn á markaðinn með 90% og síðar allt að 100% lán án skilyrða eða takmarkana. „Undirliggjandi var hins vegar sú fyrirætlan bankanna að gera ÍLS óstarfhæfan á skömmum tíma. Þessari árás tókst að hrinda með markvissum aðgerðum sem leiddu til þess að sjóðurinn stóð lítt skaddaður eftir þegar bankarnir gáfust upp eftir tæp tvö ár svo sem búast mátti við. Þessi atburðarás er flestum kunn sem vilja vita en fram hjá henni sneiðir rannsóknarnefndin,“ segir Guðmundur.

Guðmundur Bjarnason.
Guðmundur Bjarnason. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert