Beitti viðurkenndri handtökuaðferð

Skjáskot úr myndbandinu. Lögreglumaðurinn togar harkalega í konuna.
Skjáskot úr myndbandinu. Lögreglumaðurinn togar harkalega í konuna.

Lögreglumaðurinn sem leystur var frá vinnuskyldu í gær vegna handtöku í miðborg Reykjavíkur um helgina beitti norskri handtökuaðferð sem kennd er í lögregluskólanum. Þetta segir formaður Landssambands lögreglumanna og að handtaka lögreglumanna geti aldrei litið vel út á myndbandi.

Eins og kom fram á mbl.is í gær var myndband af handtöku í miðborg Reykjavíkur um helgina birt á samfélagsvefnum Facebook á sunnudagskvöld. Þar sést lögreglumaður stíga út úr bifreið, færa konu í handjárn og inn í lögreglubílinn. Umræða um myndbandið var hávær og fór svo að lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins vísaði málinu til ríkissaksóknara sem mun skoða það, en ennfremur mun umboðsmaður Alþingis fara yfir málið. Þá beindi ríkislögreglustjóri þeim tilmælum til lögreglustjórans að lögreglumaðurinn yrði sendur í leyfi.

Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, segir að umræðan hafi verið mjög óvægin og illa ígrunduð. „Þarna virðist fólk vera að tjá sig um atvik og hluti sem það varð ekki vitni að og þekkir ekki aðdragandann. Eftir því sem ég kemst næst var aðdragandinn sá að viðkomandi einstaklingur hrækti framan í lögreglumanninn með mögulegri sýkingarhættu.“

Samkvæmt heimildum mbl.is fékk umræddur lögreglumaður einmitt sýkingu í augað vegna hrákans. Snorri segist hafa heyrt af því en eigi eftir að fá það staðfest. Lögreglumaðurinn komi á fund hjá landssambandinu síðar í dag.

Snorri viðurkennir að myndbandið kunni að hafa litið verr út fyrir þær sakir að þarna hafi verið bekkur sem konan hafi lent á. „En handtaka, sama hvar og undir hvaða kringumstæðum, getur sjaldnast litið vel út á myndbandi. Svo verður fólk að kynna sér allar hliðar máls áður en það fer að tala opinberlega.“ Hann segir að þarna hafi verið beitt viðurkenndri handtökuaðferð, svonefndri norskri aðferð, sem kennd sé í lögregluskólanum. 

Landssambandið mun styðja umræddan lögreglumann eins og mögulegt er. Felst það fyrst og fremst í lögfræðiaðstoð sem og að þrýst verður á ríkissaksóknara að hraða rannsókninni sem kostur er. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert