Konan hyggst kæra handtökuna

Skjáskot úr myndbandinu.
Skjáskot úr myndbandinu.

Embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hefur vísað máli lögreglumanns til ríkissaksóknara og hyggst saksóknari rannsaka handtöku sem átti sér stað í miðborg Reykjavíkur. Handtakan náðist á myndband og sést þar lögreglumaður handtaka konu og færa hana inn í lögreglubifreið.

Konan sem um ræðir er 29 ára gamall Reykvíkingur og segir Arnar Kormákur Friðriksson, lögmaður konunnar, hana ætla að leita réttar síns. „Ríkissaksóknari hyggst rannsaka málið. Hún á eftir að fara til skýrslutöku og hefur þar af leiðandi ekki lagt fram formlega kæru en hún mun gera það þegar þar að kemur,“ segir Arnar Kormákur í samtali við mbl.is. 

Arnar Kormákur segir sýnilega áverka vera víða á líkama konunnar eftir handtökuna en daginn eftir atvikið leitaði hún læknis til að fá áverkavottorð. Að sögn lögmanns hennar er nú beðið eftir vottorðinu. „Það mun liggja fyrir í málinu innan skamms.“

Segir Arnar Kormákur konuna fagna skjótum viðbrögðum lögreglu og ríkissaksóknara í málinu.

Myndbandið af handtökunni hefur vakið mikið umtal að undanförnu og þykir mörgum sem lögreglan hafi beitt konuna harðræði. Hefur lögreglumaðurinn sem myndaður var við handtökuna verið leystur undan vinnuskyldu en formaður Landssambands lögreglumanna segir lögreglumanninn hafa beitt norskri handtökuaðferð sem kennd er í Lögregluskóla ríkisins. 

Þá hefur settur umboðsmaður Alþingis óskað eftir öllum gögnum sem liggja fyrir um handtökuna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert