„Mæli eindregið með þessu“

„Þetta er svakalega góð tilfinning,“ segir Anna Sigríður Sigurjónsdóttir, en hún lauk í dag 374 kílómetra löngu hlaupi norður Kjöl og suður Sprengisand. Hún hljóp ásamt Christine Bucholz, Maríu Jóhannesdóttur, þremur hjálparkokkum og hundi. 

Hlaupið var til styrktar MS og luku konurnar við það á níu dögum. Þær fengu góðar móttökur í Hrauneyjum í dag, þar sem fjölskylda og meðlimir í MS setrinu tóku á móti þeim.

Komum vel undan þessu 

„Okkur líður alveg ótrúlega vel en finnum samt vel fyrir því að við vorum að taka á því,“ segir Anna. Hún segir hlaupið hafa gengið vel, en konurnar lentu meðal annars í slyddu og snjókomu á leiðinni. Hópurinn hljóp að meðaltali tæpt maraþon hvern dag síðustu níu daga. „Við komum alveg ótrúlega vel undan þessu,“ sagði Anna, glöð í bragði eftir að komið var í mark.

Konurnar ætla nú að taka það rólega, fara í langþráð bað og borða góðan mat. „Ég mun pakka mér inn í teppi, leggjast upp í sófa og horfa á góða mynd í kvöld,“ segir Anna. Hún segist ekki vita til þess að neinn hafi hlaupið þessa leið áður. „Ég mæli eindregið með þessu og væri til í að gera þetta aftur.“

Enn hægt að leggja hönd á plóg

Rúmlega 300 þúsund krónur söfnuðust á  meðan hlaupið stóð yfir og hafa bæði einstaklingar og fyrirtæki lagt hönd á plóg. Enn er hægt að leggja málefninu lið með því að leggja inn á reikning MS-félagsins, 115-26-052027, kt. 520279-0169.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert