Aldrei fleiri fangar á skólabekk

Fangelsið á Litla-Hrauni.
Fangelsið á Litla-Hrauni. mbl.is/Ómar

„Þessi jákvæða þróun hefur verið í gangi síðustu ár,“ segir Árni Hrafn Ásbjörnsson, lögfræðinemi og fangi á Sogni. Aldrei fyrr hafa jafn margir fangar setið á skólabekk, skv. upplýsingum Fangelsismálastofnunar. Hins vegar er verulegur munur á aðgengi kven- og karlfanga að námi.

Alls lögðu 66 fangar stund á nám samhliða fangelsisvist á Litla-Hrauni og Sogni á síðustu önn. Þetta eru tæplega 70% fanga í þessum tveimur fangelsum.

„Í fyrstu voru margir fangar skeptískir varðandi nám og margir skráðu sig í nám eingöngu til að fá aukinn útivistartíma úr klefanum. Hins vegar hefur viðhorfið gjörbreyst á síðustu árum og sérstaklega eftir að fangar fóru að fá góðar einkunnir í háskólanámi,“ segir Árni í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Gígantískur munur á aðgengi kvenna og karla

„Það er gígantískur mismunur á aðgengi karla og kvenna að námi í íslenskum fangelsum,“ segir Anna Fríða Bjarnadóttir, náms- og starfsráðgjafi.

„Þær hafa ekki sama aðgang að interneti og námsúrvalið er takmarkaðra en hjá körlum,“ segir Anna og bendir á að allur námsstuðningur við karla er meiri í fangelsiskerfinu.

„Það þarf verulega að bæta afplánunarvist kvenna. Þær eru með einhæf og fá verkefni og námsmöguleikar þeirra eru mjög takmarkaðir.“

Hún segir ýmsa þætti orsaka þetta en almennt séð telur hún mjög sláandi hvað aðstaða kvenna er miklu verri en aðstaða karla.

„Það eru til fullt af útskýringum á þessari stöðu en það er spurning hvort við sættum okkur við slíkar útskýringar á 21. öldinni.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert