„Býsna mikið viðbragð af hálfu stúdenta“

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningamálaráðherra.
Illugi Gunnarsson, mennta- og menningamálaráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Að fara með þetta til dómstóla finnst mér nú býsna mikið viðbragð af hálfu stúdenta, staðreyndir málsins eru þær að á sama tíma og við erum að hækka námslánin og færa námsframvindukröfur til þess sem þær voru fyrir örfáum árum og er hin almenna regla á Norðurlöndum ákveða stúdentar að kæra það,“ segir Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra um stefnu Stúdentaráðs Háskóla Íslands.

En stúdentaráð tilkynnti á blaðamannafundi að þau hefðu stefnt stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) og íslenska ríkinu vegna breytinga á lánareglum sjóðsins. SHÍ telur að stjórn LÍN hafi brotið gegn lögum við töku ákvörðunarinnar um að auka lágmarkskröfur um námsframvindu úr 18 einingum í 22 á önn. Breytingarnar hafi verið boðaðar með örskömmum fyrirvara.

„Að sjálfsögðu hafa stúdentar rétt til að fara þessa leið, en ég tel þó einsýnt að ríkið hljóti að geta tekið ákvarðanir sem þessar. Við erum með þessum breytingum að bregðast við því að það er gríðarlegur halli á ríkissjóði, miklu meiri en áður var talið. Ríkisstjórnin þarf að bregðast við þessu í þessum málaflokki sem og öllum öðrum málaflokkum. Ríkið hlýtur að hafa allt svigrúm til þess að haga málum með þeim hætti sem var gert hjá stjórn LÍN og ég hef staðfest,“ segir Illugi.

„Við höfum komið til móts við athugasemdir Stúdentaráðs um að horfa ekki aðeins á eina önn heldur til skólaársins í heild, þá höfum við tryggt að ekki séu gerðar auknar kröfur til öryrkja og lesblindra ásamt því að tekið hefur verið tillit til þeirra sem eru að ljúka námi,“ segir ráðherrann.

„Þá hefur námsmönnum verið boðið að breytingarnar tækju gildi í janúar á næsta ári í staðinn fyrir strax í haust. Það hefði einnig þýtt að hækkun námslánanna hefði ekki heldur komið til framkvæmda fyrr en í janúar. Þau höfnuðu þessu tilboði og velja sér nú frekar dómstólaleiðina,“ segir Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert