Skýrsla um ESB kynnt í haust

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Herman van Rompuy, forseti leiðtogaráðs …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Herman van Rompuy, forseti leiðtogaráðs ESB.

Skýrsla um þróun mála innan Evrópusambandsins og stöðu aðildarviðræðna verður lögð fram á Alþingi í haust. Að loknum umræðum á Alþingi verður tekin ákvörðun um næstu skref í málinu. Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra að loknum fundi með Herman van Rompuy, forseta leiðtogaráðs ESB, í Brussel.

Rompuy lýsti blaðamannafundinum ánægju með að fyrsta ferð Sigmundar Davíðs erlendis væri til Brussel. Það sýndi mikilvægi sambands Íslands og ESB. Hann sagði að forsætisráðherra hefði á fundinum farið yfir pólitíska stöðu á Íslandi og hvernig ný ríkisstjórn ætlaði að halda á málum næstu misserin. 

ESB tilbúið til að halda áfram viðræðum

„Ég vil leggja áherslur á að við staðráðin í að standa við skuldbindingar okkar í sambandi við stækkunarferlið. Ég tel að það sé beggja hagur að forðast að við taki langur tími óvissu,“ sagði van Rompuy.

Sigmundur Davíð átti líka fund með José Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnar ESB. Barroso ítrekaði einnig á blaðafundi að ESB væri tilbúið til að halda áfram viðræðum ef Ísland kysi að halda þeim áfram.

„Eins og ykkur er kunnugt hefur Ísland stöðvað viðræður um aðild að ESB, að sinni. Þetta mál verður rætt á Alþingi í haust eftir að þingið hefur fengið í hendur skýrslu um þróunina innan sambandsins og stöðu aðildarviðræðna fram að þessu. Að því búnu munum við taka ákvörðun um framhaldið. Við erum hins vegar staðráðin í að viðhalda sterkum tengslum við Evrópusambandið og aðildarlönd ESB,“ sagði Sigmundur Davíð.

Ræddu umhverfismál og orkunýtingu

Forsætisráðuneytið sendi frá sér fréttatilkynngu í dag um fundina í Brussel. Þar segir að forsætisráðherra hafi á fundunum gert grein fyrir áherslum nýrrar ríkisstjórnar varðandi hlé á viðræðum við Evrópusambandið. Hann lagði áherslu á mikilvægi góðs samstarfs Íslands og Evrópusambandsins og gildi EES-samningsins fyrir Íslendinga. Fjallað var um stöðu mála innan Evrópusambandsins almennt, einkum um þróun efnahagsmála á evrusvæðinu og framtíð þess.
 
Jafnframt var rætt um að styrkja samstarf Íslands og Evrópusambandsins, m.a. varðandi orkumál og málefni Norðurslóða. Forsætisráðherra gerði einnig grein fyrir afstöðu Íslands í makríldeilunni, lýsti áhyggjum af þeirri umræðu sem hefur verið á vettvangi Evrópusambandsins um mögulegar  viðskiptaþvinganir ESB gagnvart Íslandi í andstöðu við EES og Alþjóðaviðskiptastofnunina (WTO) og benti á að slíkar aðgerðir myndu ekki stuðla að lausn deilunnar.  
 
„Þetta voru mjög uppbyggilegir og jákvæðir fundir. Möguleikar á sterkara samstarfi Íslands og ESB eru fjölbreyttir og við eigum að vinna sameiginlega að því að nýta þá óháð því hvernig sambandi þessara aðila er háttað að öðru leyti. Þar nefni ég t.d. sérstaklega Norðurslóðasamstarf, umhverfismál og orkunýtingu,“ sagði forsætisráðherra í fréttatilkynningu að loknum fundunum.
 
„Það var sérstaklega áhugavert að heyra mat Barroso á framtíðarþróun Evrópusambandsins og þeim áskorunum sem sambandið stendur frammi fyrir. Við ræddum einnig þá stöðu sem komin er upp í makríldeilunni og það var mjög ánægjulegt að heyra að forseti framkvæmdastjórnarinnar tók að loknum umræðum okkar skýrt fram að höfuðmarkmið Evrópusambandsins væri að leysa deiluna með samningum og að mögulegar refsiaðgerðir sambandsins vegna deilunnar myndu alls ekki fara út fyrir ramma EES samningsins og WTO eða annarra alþjóðlegra skuldbindinga Evrópusambandsins.“

Hér má sjá myndskeið af fundi leiðtoganna.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert