Minningarskjöldur á 100 metra dýpi í Faxaflóa

Kafararnir eftir köfunina niður að flaki Alexander Hamilton árið 2011
Kafararnir eftir köfunina niður að flaki Alexander Hamilton árið 2011 Mynd/Blue Immersion

„Við vorum fyrstir til að kafa niður að skipinu árið 2011 en nú ætlum við að festa minningarskjöld á skipið með nöfnum mannanna sem létust þegar skipinu var sökkt,“ segir Aron Daníel Arngrímsson.

Aron er einn af eigendum „Blue immersion,“ köfunarfélags í Dahab í Egyptalandi. Hann kom til landsins árið 2011 ásamt samstarfsfélögum sínum, þeim Jonas Samuelsson og Erik Brown til þess að þjálfa íslensku kafarana Sigurð Haraldsson og Valgeir Pétursson fyrir leiðangurinn þar sem markmiðið var síðan að kafa niður að flaki herskipsins U.S.C.G.C. Alexander Hamilton sem þýskur kafbátur sökkti í Faxaflóa 30. janúar 1942.

Kafbáturinn skaut tundurskeytum að skipinu og létust sjö skipverjar við sprenginguna. Skipið sökk ekki strax, og fyrst í stað var reynt að draga skipið í land. Það gekk hins vegar ekki og að lokum var annað bandarískt herskip látið skjóta á skipið til þess að senda það niður á hafsbotn. Þar liggur það á hvolfi enn í dag.

Ferðuðust um landið árið 2011

Hópurinn ferðaðist um landið í undirbúningi sínum fyrir köfunina árið 2011. „Við köfuðum í Kleifarvatni til þess að venjast hinu mikla dýpi sem flakið er á.  Síðan köfuðum við í Silfru til þess að athuga hvort líkaminn okkar þyldi mikinn kulda, en þar var hitastigið í vatninu í kringum tvær gráður. Síðan köfuðum við í Strýtu til þess að venjast því að kafa í opnum sjó áður en við tókum lokaæfinguna með köfun að flakinu á El Grillo í Seyðisfirði.“ 

Köfunin síðast gekk mjög vel að sögn Arons. „Við köfuðum niður að skipinu og fundum nafnið á því.  Aðstæður voru ágætar til köfunar, en sjórinn var á yfirborðinu mjög úfinn, en þökk sé góðum skipstjóra tókst okkur að komast að flakinu.“

Eftir köfunina síðast hefur hópurinn verið í samskiptum við bandaríska herinn og fjölskyldu þeirra sem létust á skipinu. „Þeir létu útbúa minningarskjöld sem er með segli á, þannig að hann festist beint á skipið.“ Ætla þeir félagarnir að hegða undirbúningi sínum fyrir köfunina með sama hætti og síðast, með köfun í Silfru, Kleifarvatni, Strýtu og að El Grillo. 

Ísland frábær áfangastaður fyrir kafara

Aron segir aðstæður til köfunar á Íslandi frábærar. „Við urðum svolítið hissa þegar við komum hingað fyrst, því hér eru margir spennandi staðir. Við fundum til dæmis nýtt hverasvæði á botni Kleifarvatns. Í miðri köfun tóku allt í einu allar nálarnar í áttavitunum okkar að snúast í hringi. Við vissum ekkert hvað var að gerast þarna niðri í dýpinu. Síðan er Silfra auðvitað heimsfrægur köfunarstaður, á milli tveggja heimsálfa.“

Liðsheildin skiptir miklu máli í köfun

Aron hefur dvalist erlendis í þrettán ár. Fyrst sem atvinnukafari áður en hann fluttist til Egyptalands og stofnaði köfunarfélagið. Hann segir köfun ekki eins hættulega og fólk haldi. 

„Það er ekki hættulegt að kafa ef maður gerir það rétt. Þegar maður kafar svona djúpt  verður maður að vera búinn með þjálfunina til þess. Við djúpkafanir erum við með tvöfalt af öllum tækjum sem við þurfum, til dæmis tvo súrefniskúta. Markmiðið er að maður geti sjálfur bjargað sér ef maður lendir í vandræðum með búnaðinn. Síðan skiptir auðvitað höfuðmáli að vera í góðu teymi.“

Hér má sjá myndband sem sýnir undirbúning fyrir köfunina að Alexander Hamilton árið 2011.

Ættingjar manns sem lést um borð í Alexander Hamilton árið …
Ættingjar manns sem lést um borð í Alexander Hamilton árið 1942 með minningarskjöldinn Mynd/Blue Immersion
Að lokinni köfuninni árið 2011 var haldin minningarathöfn um borði …
Að lokinni köfuninni árið 2011 var haldin minningarathöfn um borði í skipinu sem flutti kafarana að flakinu Mynd/Blue Immersion
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert