Rauðbirkinn Sigmundur Davíð heillar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og José Manuel Barroso.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og José Manuel Barroso.

„Mikið er Gunnlaugsson hrífandi maður.“ Þetta segir írskur blaðamaður, sem virðist hafa fallið kylliflatur fyrir sjarma Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á blaðamannafundi í Brussel. Íslenski forsætisráðherrann er eins og fæddur til að sveifla sverði, að hennar mati.

Mary Ellen Synon er fréttaritari Irish Daily Mail í Brussel og skrifar reglulega pistla um málefni Írlands gagnvart Evrópusambandinu. Í pistli sínum í gær segist hún hafa dottið í lukkupottinn þegar hún fékk að sitja blaðamannafund vegna málefna Íslands og ESB, þar sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sátu fyrir svörum.

„Líkamsbygging sem jakkafötin gátu ekki falið“

Greinilegt er að Synon er hliðholl málstað Íslands í makríldeilunni, enda skrifar hún pistilinn undir fyrirsögninni: „Ísland vs. einelti ESB: Víkingurinn sýnir þeim hvað „sjálfstæði“ þýðir í raun“.

Norræn ásjóna og líkamsburðir forsætisráðherrans virðast hafa höfðað mjög til blaðakonunnar sem þykir Barroso ekki hafa notið samanburðarins þar sem þeir stóðu hlið við hlið.

„Það  var eins og íslenski forsætisráðherrann hefði stokkið beint út úr hópi víkingaleikara. Hann var höfðinu hærri en hinn portúgalski Barroso, með rauðleitt, ljóst hár, ljós augu og rjómableikt litaraft - og líkamsbyggingu sem jakkafötin gátu ekki falið. Hann virtist erfðafræðilega hannaður til þess að sveifla breiðsverði.“

„Víkingurinn“ kann að meta fullveldið

Líkt og mbl.is sagði frá var Sigmundur Davíð spurður út í yfirlýsingar Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóra ESB, um makrílveiðar Íslendinga, en hún sagði að ESB gæti ekki beðið til næsta árs með að bregðast við veiðum Íslendinga.

Svar forsætisráðherrans var írska blaðamanninum að skapi. „Ég tel ólíklegt að ESB hrindi slíkum refsiaðgerðum í framkvæmd, ekki síst refsiaðgerðum sem eru ekki í samræmi við reglur WTO og EES-samningsins. Íslensk stjórnvöld eru tilbúin að finna lausn á deilunni,“ sagði Sigmundur Davíð.

Blaðakonan segir að með svari sínu hafi forsætisráðherrann verið afslappaður en þó komið sér beint að efninu. „Víkingurinn veit hvaða styrkur felst í því að halda fullveldinu.“

Upptöku af blaðamannafundi Barroso og Sigmundar Davíðs má sjá hér að neðan, og dæmi nú hver fyrir sig: 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert