Hiti fór í 26,4 stig í Ásbyrgi

Hólmfríður og Guðrún Petra Jónsdætur sátu léttklæddar og mátuðu sólgleraugu …
Hólmfríður og Guðrún Petra Jónsdætur sátu léttklæddar og mátuðu sólgleraugu á Þórshöfn í dag. mbl.is/Líney

„Í Ásbyrgi fór hitinn í 26,4 stig, á Skjaldþingsstöðum í 26 stig og á Seyðisfirði í 25,3 stig,“ segir Einar Magnús Einarsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands í samtali við mbl.is en hiti fór víða yfir 25 stigin á Norðausturlandi í dag.

Voru tuttugu stiga tölur algengar á Norðurlandi vestra og allt austur á Austfirði en áberandi hlýjast var þó á Norðaustur- og Austurlandi. 

Aðspurður segist Einar Magnús ekki eiga von á því að nein hitamet hafi fallið í dag þó einhver dagsmet kynnu að hafa fallið. „Án þess að ég hafi skoðað það sérstaklega efast ég stórlega um það enda hitametin há fyrir norðan.“

Framundan segir Einar Magnús blíðskaparveður vera í kortunum. „Hann er að snúast í hæga austanátt og það verður hlýrra víðar á landinu. Morgundagurinn verður e.t.v. heldur lakari en í dag með meiri hafgolu en á þriðjudag verður enn hlýrra.“

Á höfuðborgarsvæðinu kann þó hafgola að hafa áhrif á hitatölur en inn til landsins má búast við góðum hita.

Hlýtt var einnig á hálendinu í dag með yfir 20 stigum. Á Möðrudal og Vopnafjarðarheiði fór hiti t.a.m. í 23 stig og á Biskupshálsi í 23,3 stig.

Nánar má fræðast um veðrið á veðurvef mbl.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert