Reynt að koma hjólunum niður

Umfangsmikil aðgerð er nú hafin á Keflavíkurflugvelli en verið er að lyfta flugvélinni sem magalenti þar síðastliðinn sunnudag. Flugvélin er af gerðinni Sukhoi Superjet 100 og vegur hún um 30 tonn.

Að sögn Ragnars Guðmundssonar, rannsakanda hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa, er þetta í fyrsta sinn sem aðgerð af þessum toga er gerð hér á landi.

„Það er verið að lyfta vélinni með aðstoð tveggja krana og hafa púðar verið settir undir vængina,“ segir Ragnar. Kranarnir grípa í skrokk vélarinnar, bæði að framan og aftan, og veita púðarnir aukinn stuðning. Eftir að búið er að lyfta þotunni upp verður rafmagn tengt við hana á ný. Því næst verður reynt að setja lendingarbúnað flugvélarinnar niður.

„Við komum með búnað til þess að setja rafmagn aftur á vélina og svo á að prófa að sleppa hjólastellinu niður,“ segir Ragnar en að sögn hans eru fáar hættur fólgnar í því að lyfta vélinni upp. Þarf helst að huga að góðum stöðugleika í hífingu.

Búið er að tæma eldsneytistanka þotunnar og er eldhætta því lítil þótt rafmagni sé hleypt á flugvélina á ný.

Takist að koma hjólastellinu niður er næsta skref að flytja flugvélina frá enda flugbrautarinnar, þar sem hún er núna, og að flughlaði við flugskýli á Keflavíkurflugvelli. „Vélin er náttúrulega ekki á flugbrautinni svo það á enn eftir að koma í ljós hvernig sú aðgerð mun ganga.“ En gljúpur jarðvegur er á því svæði sem vélin er staðsett og þurfa menn því að taka tillit til þess við flutning hennar.

Ferðriti vélarinnar til Rússlands

Búið er að ná tveimur flugritum, ferðrita og hljóðrita, úr flugvélinni og eru þeir enn í vörslu rannsóknarnefndarinnar. Til stendur að senda ritana úr landi til greiningar en Ragnar á von á því að þeir verði sendir til Rússlands því flugslysanefndin þar í landi hefur til umráða þann búnað sem nauðsynlegur er til þess að lesa af ferðrita vélarinnar.

Fyrr í dag greindi mbl.is frá því að rannsókn slyssins miði vel áfram. Í skýrslum sem teknar voru af áhöfninni komu fram ákveðnar skýringar á því sem gerðist en rannsóknarnefndin þarf þó að staðfesta þær með rannsókn á vélinni og flugritum.

Segja tækjabúnað hafa verið í lagi

Í tilkynningu sem framleiðandi vélarinnar sendi frá sér í kjölfar atviksins á Keflavíkurflugvelli kemur m.a. fram að magalendingin mun ekki hafa nein áhrif á þær Sukhoi Superjet 100 vélar sem nú þegar eru í notkun.

Að sögn framleiðanda virkaði allur tækjabúnaður flugvélarinnar sem skyldi þegar slysið átti sér stað og er vonast til þess að hægt verði að gera við flugvélina og nota hana áfram við tilrauna- og æfingaflug.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert