27 tóku þátt í Urriðavatnssundi

Þátttakendur leggjast til sunds í Urriðavatni á Héraði í blíðskaparveðri …
Þátttakendur leggjast til sunds í Urriðavatni á Héraði í blíðskaparveðri í dag. mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

Urriðavatnssund var þreytt á Héraði í dag, Tóku 27 manns þátt í sundinu, þar af tveir í skemmtisundinu sem er 400 metrar. 

Sundið í heild er rúmir 2500 metrar eða sem svarar heildarlengd Urriðavatns en undanfarin tvö ár hafa verið þreytt sund eftir endilöngu vatninu.

Nú var hins vegar lagst til sunds við borholur Hitaveitunnar og synt inn undir bæinn Urriðavatn og til baka aftur.

Ásgeir Elíasson sigraði í sundinu á um það bil 47 mínútum en Sigrún Ólafsdóttir sigraði í 400 metra skemmtisundinu á um 10 mínútum.

Urriðavatn er eitt stærsta vatn á Héraði, um 100 hektarar að flatarmáli, rúmir 2 km á lengd og 0,5 km á breidd. Meðaldýpi er 4-5 metrar og mesta dýpi um 10 m. Vatnið er mjög lífríkt enda renna í það lækir úr flestum vötnum í Fellagriðlandi. Vatnið er talið með bestu veiðivötnum á Héraði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert