Lentu í návígi við hákarl

Sleggjuháfur/hammerhead shark
Sleggjuháfur/hammerhead shark Af vef Wikipedia

Íslensk fjölskylda átti kannski ekki von á því að hákarl myndi gera sér dælt við hana er hún skrapp á ströndina á Flórída en fjölskylda Jóns Júlíussonar varð fyrir þeirri lífsreynslu á dögunum.

ABC sjónvarpsstöðin fjallaði um málið í gærkvöldi og ræddi við Jón Júlíusson sem býr í Pensacola á Flórída. Hann ákvað að fara með fjölskyldu sína á ströndina en þangað hafði fjölskyldan aldrei komið.

Þegar þau voru í sjónum heyrðu þau hróp af ströndinni þar sem þau eru hvött til að  gæta að sér. Þegar Jón sér hákarlinn er hann fljótur að grípa frænku sína og hlaupa með hana upp á stöndina.

Samkvæmt frétt ABC er ekki óalgengt að sleggjuháfar hætti sér nálægt fólki á ströndinni á þessum slóðum.

Upplýsingar um Sleggjuháfa af Vísindavefnum: Sleggjuháfar (e. hammerhead sharks) eru hákarlar af ættkvíslunum Sphyrna og Eusphyrna. Þeir eru auðþekkjanlegir vegna sérkennilegrar lögunar á haus sem er útflattur og líkist sleggju með augun yst á endunum (sleggjusköllunum). Þekktar eru átta tegundir sleggjuháfa sem finnast nær eingöngu í hlýjum sjó við miðbaug jarðar, þar af telst aðeins ein tegund til ættkvíslarinnar Eusphyrna. Ein tegund teygir þó útbreiðslu sína á tempruð hafsvæði. Það er tegundin Sphyrna zygaena sem finna má undan ströndum Nova Scotia, suður við Galapagosseyjar og undan ströndum Argentínu.

Stærst er tegundin Sphyrna mokarran (e. great hammerhead shark) sem einfaldlega mætti kalla á íslensku stóra sleggjuháfinn. Hann getur orðið rúmir 5,5 metrar á lengd og finnst við miðbaug um alla jarðarkringluna. Aðrar tegundir sleggjuháfa eru á stærðarbilinu 1-5 metrar. 

Stóri sleggjuháfurinn er talinn hættulegur mönnum enda hafa sleggjuháfar almennt mjög breitt fæðusvið. Sá stóri er alveg eins líklegur til að ráðast á menn og hefur það reynst raunin. Samt sem áður hafa margir sportkafarar kafað innan um stóra sleggjuháfa án þess að verða fyrir nokkurri ógnun. Aðrar tegundir sleggjuháfa eru ekki á lista yfir hættulega hákarla, flestar eru smáar og lifa einungis á krabbadýrum, eins og til dæmis „bonnet“ sleggjuháfurinn (Sphyrna tiburo) sem er smæstur sleggjuháfa eða 70-100 cm að stærð.

Sérstök lögun höfuðsins á sér líffræðilega skýringu. Flatvaxinn hausinn eykur flotvægi háfsins auk þess sem að fjarlægðin á milli augnanna víkkar sjónsviðið. Meira yfirborð haussins gerir sleggjuháfum kleift að hafa fleiri rafskynfæri en aðrir háfar/hákarlar og gefur þeim mun næmari skynjun á umhverfi sínu, til dæmis við að skynja bráð.

Frétt ABC og myndskeið sem Jón tók

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert