Unnið að öryggi þjóðhátíðargesta

Frá þjóðhátíð í Herjólfsdal.
Frá þjóðhátíð í Herjólfsdal. mbl.is

Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum verður haldin um helgina í 139. skiptið, en búist er við að á annan tug þúsund gesta leggi leið sína á hátíðina. Formleg setning hennar er á föstudaginn, en strax á fimmtudag er hið árlega Húkkaraball haldið. 

Á svæðinu verður skipulögð gæsla að störfum alla hátíðina, bæði nótt og dag. Að sögn Páls Scheving, sem hefur umsjón með gæslunni á hátíðinni verður hún með svipuðu sniði og undanfarin ár. „Við erum með svona 100-120 manns á vakt á þessum helstu álagspunktum, á kvöldin og nóttunni. Síðan eru aðeins færri á daginn. Við stefnum að því að hefja vaktirnar á miðvikudag og verðum að alveg fram á mánudaginn,“ segir Páll, en fjölbreyttur hópur stendur vaktina í gæslunni. „Það eru 14-15 lögreglumenn, öryggisverði, sjúkraliða, slökkviliðsmenn, bráðatækna, sjúkraflutningamenn og svo auðvitað sálgæslu.“

Áfallateymi verður með aðstöðu á svæðinu

Hjalti Jónsson, doktor í klínískri sálfræði er umsjónarmaður áfallateymis sem verður með aðstöðu á hátíðarsvæðinu. Markmið teymisins er að veita þeim sálræna skyndihjálp sem á hátíðinni kunna að lenda til dæmis í hættu eða ofbeldi, eða verða vitni að slíku. „Við erum staðsett í sjúkraskýlinu og hugmyndin er að bæði gestir og starfsmenn hátíðarinnar sem lenda í áföllum geta komið til okkar og fengið skyndihjálp. Síðan er okkar hlutverk að koma málum í réttan farveg,“ segir Hjalti. Starfsmennirnir í teyminu eru vel undirbúnir og verkferlar liggja fyrir til þess að taka á tilvikum sem upp kunna að koma. Starfsmenn áfallateymisins eru 7 talsins, en þeir hafa allir reynslu af störfum sem tengjast áfallahjálp eða störfum á sviði félags- og heilbrigðisvísinda. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert