Íslensk kona talin efnileg í tæknigeiranum

Adda Birnir
Adda Birnir

„Tæknigeirinn er karllægur bransi og mörg fyrirtæki sem eru með kennslu í forritun miða námið að karlmönnum. Við erum hins vegar að reyna höfða til kvenna og virkja þær,“ segir Adda Birnir, en hún er stofnandi og eigandi fyrirtækisins Skillcrush sem heldur úti námskeiðum þar sem grunnatriði forritunar eru kennd. 

„Margar konur sjá í upphafi ekki hversu áhugaverður tæknigeirinn er og við vildum því hanna eitthvað sem höfðaði sérstaklega til þeirra. Það er það sem greinir okkur frá öðrum.“ Fyrirtækið stofnaði hún árið 2012 og býður þar upp á þriggja vikna námskeið þar sem farið er yfir grunnatrið forritunar. „Þú getur tekið námskeiðið á þínum hraða en við gerum mikið út á samskipti, bæði við nemendur og kennara og reynum að byggja upp sterkan hóp.“

Áhrifamest undir þrítugu

Adda er á hraðri uppleið í tæknibransanum, en í apríl síðastliðnum var hún sett í sjöunda sæti á lista Business Insider yfir 30 áhrifamestu konur undir þrítugu í tæknigeiranum. Hún telur að konur eigi almennt erfiðara uppdráttar í þessum geira, en segist þó sjálf hafa góða reynslu og fengið frábær tækifæri. 

„Það er erfitt að fara á ráðstefnur og fundi þar sem karlmenn eru í gífurlegum meirihluta. Ég fór um daginn á stóra ráðstefnu þar sem við vorum einungis þrjár konur. Síðan fór ég á hluta þar sem fólk var að segja frá reynslu við að selja fyriræki sín. Þar var engin kona. Þá fór ég að huga hvort það væri yfir höfuð hægt að gera þetta sem kona, því engin var að því og þar með engin fyrirmynd.“

Hún segir það því vera afar mikilvægt að konur eins og hún sjálf og vinkonur hennar vinni í málinu. „Ég hef fengið svo mörg tækifæri en hef áhyggjur af þeim konum sem ekki eru jafn heppnar.“

Tækni er skapandi og skemmtileg

Adda útskrifaðist úr Yale háskólanum árið 2007 í ljósmyndum. Ferill hennar telst nokkuð glæstur frá útskrifinni þar sem hún hefur meðal annars unnið sem blaðamaður fyrir fjölmiðlarisana New York Times og Huffington Post, en i dag er hún meðal annars með reglulegan pistil á vef Huffington Post. „Það er erfitt að vera blaðamaður í Bandaríkjunum, en um leið og ég ákvað að einbeita mér að tækni fékk ég meira að gera.“ 

Hún segist hafa tekið eftir mikilli skiptingu á meðal þeirra sem nýbyrjaðir væru í starfi og þeirra sem lengri starfsaldur höfðu. „Allir þeir sem virkilega kunnu á forrit og tækni voru karlmenn. Það voru þeir á móti okkur sem skildu ekki neitt og þetta var á engan hátt aðgengilegt. Allt bara tæknilegt og óspennandi. Þetta gefur fólki þá hugmynd að tækni sé leiðinleg, en það er alls ekki svo. Tæknin er skapandi og skemmtileg.“

„Bara byrjunin“

Adda telur að hlutur kvenna innan tæknigeirans eigi eftir að aukast. „Þetta er ennþá svo ung grein og margir af þeim sem nú eru á toppnum kenndu sér sjálfir. Til lengdar eiga fleiri konur eftir að hafa áhuga og vilja læra.“

Næst á döfinni segir hún vera að auka við fjölbreytni námskeiðanna sem Skillcrush býður upp á. „Þetta er bara byrjunin með html forritun. Næst ætlum við að halda námskeið sem eru tæknilegri og halda áfram að virkja byrjendur.“

Þeir sem vinna að forritun eru að stærstum hluta karlar.
Þeir sem vinna að forritun eru að stærstum hluta karlar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert