Beita grófu ofbeldi á heimilum

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust um 900 tilkynningar um heimilisofbeldi árið 2012. Málin voru af ýmsum toga, en í um fjórðungi þeirra var beitt ofbeldi, stundum á mjög grófan og ófyrirleitinn hátt.

Í ársskýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eru rakin nokkur alvarleg mál þar sem ofbeldi var beitt á heimili.

„Um mitt sumar var lögreglan kölluð að húsi í miðborginni þar sem maður veittist að barnsmóður sinni með hnífi. Hún var blóðug þegar að var komið, en börn fólksins voru á heimilinu þegar árásin átti sér stað. Konan var flutt á slysadeild, en barnsfaðirinn var handtekinn og færður á lögreglustöð.

Síðla árs var karl á þrítugsaldri stunginn í höfuðið með eldhúshnífi í íbúð í Kópavogi. Talsvert blæddi úr sárinu þegar lögreglan kom á vettvang, en mildi þykir að maðurinn skyldi ekki slasast alvarlega. Gerandinn var barnsmóðir mannsins, en þau bjuggu ekki lengur saman og var hann því gestkomandi á heimilinu. Ungur sonur þeirra varð vitni að árásinni, en báðir foreldrar hans voru fluttir á slysadeild, en áverka var einnig að finna á móðurinni. Gerðar voru viðeigandi ráðstafanir í þágu drengsins.

Í byrjun apríl var kallað eftir aðstoð lögreglu að fjölbýlishúsi í Kópavogi. Þar hafði karl á þrítugsaldri gengið í skrokk á konu á fertugsaldri, en nærstaddir heyrðu neyðaróp konunnar og skökkuðu leikinn. Þegar lögreglan kom á vettvang höfðu nokkrir vegfarendur handsamað árásarmanninn og héldu honum föstum á gangstétt við húsið. Konan lá þar skammt frá, en hún virtist vera með skerta meðvitund og eiga erfitt með andardrátt. Hún var flutt á sjúkrahús í skyndi, en konan var með áverka á höfði. Kertastjaki fannst á vettvangi, en talið er að árásarmaðurinn hafi m.a. notað hann við barsmíðarnar. Skömmu fyrir árásina hafði konan kvartað undan árásarmanninum, en hún bjó áður með föður hans. Barn konunnar, og hálfsystkini árásarmannsins, var heima við á meðan á öllu þessu stóð. Hvort árásarmaðurinn ætlaði að ráða konunni bana skal ósagt látið, en fullvíst má telja að enn verr hefði getað farið. Inngrip þeirra sem yfirbuguðu manninn á vettvangi var að þakka að svo fór ekki.

Seinni hlutann í apríl var aftur tilkynnt um alvarlega líkamsárás í Kópavogi. Á vettvangi mátti sjá opnar útidyr að kjallaraíbúð, en innandyra voru ummerki eftir átök. Íbúðin reyndist mannlaus, en í henni bjó kona um þrítugt. Hún fannst skömmu síðar, eða í íbúð á hæðinni fyrir ofan. Konan hafði verið stungin margsinnis, en áverkar hennar voru lífshættulegir. Árásarmaðurinn, 17 ára piltur, bjó einnig í húsinu, og var handtekinn þar. Hann hafði farið í kjallaraíbúð konunnar vopnaður eldhúshnífi og stungið hana ítrekað, eins og áður var lýst. Þrátt fyrir þessa hrottalegu árás tókst konunni að ná hnífnum af piltinum og forða sér til nágrannanna í næstu íbúð. Einn þeirra er faðir árásarmannsins og hafði áður verið í sambúð með árásarþola.“

Ofbeldi var víða beitt, en fjöldi kynferðisbrota var enn fremur til rannsóknar hjá  embættinu árið 2012. Þar má nefna 85 nauðganir (194. gr. alm. hegningarlaga) og tæplega 60 kynferðisbrot gegn börnum. Þetta er svipaður málafjöldi og árið á undan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert