Ísland ekki undirbúið fyrir fjöldann

Ferðamenn við Geysi í Haukadal.
Ferðamenn við Geysi í Haukadal. mbl.is/Kristinn

„Því miður höfum við ekki búið okkur nægilega vel undir það að fá svona mikinn fjölda fólks á staðina.“

Þetta segir Örvar Már Kristinsson, formaður Félags leiðsögumanna, í umfjöllun um þróun ferðamála á Íslandi í Morgunblaðinu í dag. Hann segir að margir ferðamenn séu nú á landinu og mikill átroðningur á vinsælustu stöðunum.

Örvar segir að reynt sé að nýta meira önnur svæði eins og Reykjanesið, Snæfellsnesið og Borgarnes fyrir ferðamenn í staðinn fyrir Gullna hringinn, en þar sé fjölgun ferðamanna hvað mest áberandi og á stöðum nálægt Reykjavík.

Erlendum leiðsögumönnum sem koma hingað til lands á vorin og fara að hausti hefur fjölgað mjög mikið. „Við vitum ekkert hvað erlendir leiðsögumenn segja um land og þjóð, við óttumst að þar sé farið frjálslega með staðreyndir,“ segir Örvar Már, en hann hefur sjálfur orðið vitni að því að erlendur leiðsögumaður fór með staðreyndavillur fyrir stóran hóp ferðamanna.

Greiðslukortavelta erlendra ferðamanna í júní jókst alls um 18,1% frá sama mánuði í fyrra og nam næstum 9,8 milljörðum króna.

Erlendir ferðamenn vörðu mestu í gistingu, næstmestu í verslun og þar næst í ýmsa skipulagða ferðaþjónustu eins og skoðunarferðir og hvalaskoðun, segir í tilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar.

Eyða 24% meira á veitingahúsum

„Veitingahús njóta góðs af auknum ferðamannastraumi til landsins því ferðamenn greiddu rúmlega 1,1 milljarð kr. með greiðslukortum fyrir veitingar í júní sem er um 24% aukning frá júní í fyrra. Þá greiddu erlendir ferðamenn næstum 1,8 milljarð. kr. með kortum sínum í verslunum hér á landi, sem var 13%  hærri upphæð en í júní í fyrra. Fjórðungsaukning  var í erlendri kortaveltu í dagvöruverslunum og 17% aukning í Fríhöfninni, svo dæmi séu tekin,“ segir í tilkynningu.

 Útlendingar greiddu í júní 21 milljón kr. með kortum fyrir ferjuflutninga sem er aukning um 156% frá síðasta ári. Líklega er þar um að ræða mikil aukning ferðamanna til Vestmannaeyja og um Breiðafjörð.

Kortavelta vegna gistingar á tjaldstæðum og öðrum gististöðum en hótelum og gistiheimilum, jókst um 119% í júní frá sama mánuði í fyrra. Erlend kortavelta á þessum gistisvæðum nam 9 milljónum í júní síðastliðnum sem er þó aðeins brot af greiðslum vegna hótelgistinga sem var um 2,5 milljarðar kr.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert