Fjölmenni í veðurblíðu í Herjólfsdal

Þúsundir manna hafa safnast saman í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum í kvöld. Kvölddagskráin hófst klukkan 20:30 og eru Stuðmenn á meðal þeirra sem munu skemmta þjóðhátíðargestum í kvöld. Þá frumflutti Björn Jörundur Friðbjörnsson þjóðhátíðarlagið.

„Þetta lítur alveg glimrandi vel út,“ segir Birgir Guðjónsson, formaður þjóðhátíðarnefndar ÍBV, í samtali við mbl.is. Hann bætir við að hann hafi sjaldan séð jafn margt fólk í dalnum; fólk hafi streymt í hann í allt kvöld.

„Það er eitt sem er alveg á hreinu að þetta er af stærri þjóðhátíðunum,“ segir hann og spáir því að hátíðin í ár verði ekki minni en hátíðin í fyrra, sem var sú þriðja stærsta frá upphafi.

„Við erum rosalega kátir í Eyjum - sérstaklega með veðrið,“ segir Birgir, en þar hefur verið sól og blíða. „Það er ekki oft í Vestmannaeyjum sem spáir svona logni í þrjá sólarhringa. Og það er eiginlega veðrið sem mokar fólkinu hérna yfir, held ég bara,“ segir Birgi og bætir við að fólk skemmti sér mjög vel í Herjólfsdal.

Hátíðin var sett með formlegum hætti klukkan 14:30 í dag og aðspurður segist Birgir sjaldan hafa séð jafn marga vera viðstadda setningarathöfnina. Fólk hafi eiginlega verið út um allan dal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert