Ræddu við flugmanninn í dag

Flak vélarinnar við athafnasvæði Bílaklúbbins á Akureyri.
Flak vélarinnar við athafnasvæði Bílaklúbbins á Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Starfsmenn Mýflugs hittu í dag samstarfsmenn sína hjá Slökkviliði Akureyrar auk þess sem rætt var við flugmanninn sem lifði af þegar sjúkraflugvél frá Mýflugi brotlenti eftir hádegið í gær. Ekki þykir tímabært að ræða um tildrög eða ástæður slyssins.

Í tilkynningu frá Mýflugi segir að mikill samhugur hafi verið á fundi samstarfsmannanna og eindreginn ásetningur hafi komið fram um að láta harmleikinn ekki skyggja á það starf sem byggt hafi verið upp í sjúkraflugi frá Akureyri.

„Rannsókn Rannsóknarnefndar samgönguslysa er á frumstigi og því er ekki tímabært að tjá sig um tildrög eða ástæður slyssins. Mýflug mun áfram vinna með rannsóknaraðilum samhliða eigin rannsókn,“ segir í tilkynningunni. Þá segir að vonandi verði rannsóknin til að bæta flugöryggi í framtíðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert