Veita áfram áfallahjálp á Akureyri

Frá slysstað í gær.
Frá slysstað í gær. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Áfallateymi Rauða krossins er enn að störfum vegna flugslyssins á Akureyri í gær, og geta allir sem vilja leitað aðstoðar í húsnæði félagsins að Viðjulundi 2 á Akureyri.  

Rauða krossinum er umhugað um að þeir sem telja sig þurfa á sálrænum stuðningi að halda vegna slyssins leiti til sérfræðinga félagsins í áfallahjálp. Opið verður hjá Rauða krossinum til klukkan 20.00 í kvöld.

Fjöldi sjónarvotta varð að flugslysinu. Eðlilegt er að atburður sem þessi hafi áhrif á líðan fólks, segir í tilkynningu frá Rauða krossinum. Gott er að leita sér sálræns stuðnings í kjölfarið, en besti stuðningurinn er oft fólginn hjá aðstandendum og í samveru við vini og vandamenn.

Tíu manna áfallahjálparteymi Rauða krossins á Norðurlandi hlúði að aðstandendum og sjónarvottum eftir flugslysið í gær, og sóttu um 60 – 70 manns fjöldahjálparstöð sem Rauði krossinn opnaði í Glerárkirkju.

Strax eftir flugslysið var flugslysaáætlun virkjuð, sem var síðast æfð á Akureyri í vor.

Hjálparsími Rauða krossins, 1717, leiðbeinir einnig um stuðning, og er fólki sem ekki hefur tök á að leita til félagsins á Akureyri bent á að hringja í hann eða leita sér upplýsinga á vefsíðunni raudikrossinn.is. Símanúmer Hjálparsíma Rauða krossins er 1717.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert