Vettvangsrannsókn lýkur seint í kvöld

Björgunarsveitarmenn hreinsa til á vettvangi flugslyssins um kvöldmatarleytið í dag. …
Björgunarsveitarmenn hreinsa til á vettvangi flugslyssins um kvöldmatarleytið í dag. Hlutar úr flugvélaflakinu voru fjarlægðir til rannsóknar mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Hópur manna er enn að störfum á vettvangi flugslyssins á Akureyri, en gangi allt eftir lýkur vettvangsrannsókn í kvöld og flak vélarinnar verður þá flutt burt. Opin samverustund vegna slyssins verður haldin fyrir almenning í Glerárkirkju annað kvöld.

„Við erum að taka hlutina saman til frekari rannsóknar. Það eru aðstoðarmenn hér hjá mér á vettvangi,“ segir Þorkell Ágústsson sem stýrir rannsókn slyssins. Honum til aðstoðar eru slökkviliðsmenn auk sjálfboðaliða frá Björgunarsveitinni Súlum á Akureyri.

Vélin flutt burt til tæknirannsóknar

Tveir létust þegar sjúkraflugvél Mýflugs fórst á kvartmílubrautinni í nágrenni Akureyrar í gær. Vélin hafði skömmu áður hætt við lendingu og var að fljúga hring um flugvöllinn þegar hún kom að akbraut Bílaklúbbs Akureyrar við Hlíðarfjall og lenti þar mjög harkalega. Flugmaðurinn komst lífs af og er líðan hans stöðug.

Bæði lögreglan á Akureyri og Rannsóknarnefnd samgönguslysa hafa í kjölfarið safnað gögnum á vettvangi og reynt að finna þar vísbendingar um orsök slyssins. Aðspurður segir Þorkell stefnt að því að ljúka vettvangsrannsókn í kvöld og verður flak vélarinnar flutt í húsnæði rannsóknarnefndarinnar til tæknirannsóknar.

Samverustund fyrir almenning á morgun

Glerárkirkja á Akureyri býður til opinnar samverustundar vegna flugslyssins á miðvikudagskvöld, klukkan 20. Að sögn sr. Örnu Ýrar Sigurðardóttur verður kirkjan öllum opin og er samverustundin ætluð almenningi.

Fjöldi fólks var saman kominn á kvartmílubrautinni og varð vitni að slysinu. Þótti mikil mildi að enginn skyldi slasast, en um 70 manns þáðu áfallahjálp í kjölfar slyssins í gær.

Björgunarsveitarmenn hreinsa til á vettvangi flugslyssins um kvöldmatarleytið í dag. …
Björgunarsveitarmenn hreinsa til á vettvangi flugslyssins um kvöldmatarleytið í dag. Hlutar úr flugvélaflakinu voru fjarlægðir til rannsóknar. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert