AGS leggst gegn skuldaniðurfellingu

Christine Lagarde, framkvæmdastjóri AGS
Christine Lagarde, framkvæmdastjóri AGS AFP

Framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) hefur nú lokið reglubundinni umfjöllun sinni um stöðu efnahagsmála á Íslandi og birt niðurstöður sínar og skýrslur starfsmanna sjóðsins af því tilefni. Sjóðurinn leggst gegn skuldaniðurfellingu.

Í „lauslega þýddri“ tilkynningu frá sjóðnum vegna umfjöllunarinnar segir að íslenskt efnahagslíf sé á batavegi, en nokkrir eftirmálar lítils hagvaxtar undanfarið séu nú að koma í ljós .

Afnám fjármagnshafta hefur að mati sjóðsins gengið erfiðlega, og lágar upphæðir aflandskróna hafa losnað í gegnum þær leiðir sem myndað hafa stefnu stjórnvalda í gjaldeyrismálum. Stofn óbundinna aflandskróna er þó ennþá stór og gæti stækkað umtalsvert þegar bú „gömlu bankanna“ verða leyst upp.

Þá segir í tilkynningunni að verðbólgu hafi verið náð úr 18,6% í janúar 2009 niður í 3,3%. Hún er þó enn yfir 2,5% markmiði Seðlabanka Íslands.

Í tilkynningunni segir ennfremur að viðleitni til að ná jöfnuði í opinberum fjármálum hefur mætt andbyr. Nú stefni í að markmið um afkomu sem sett voru í fjárlögum náist ekki vegna minni hagvaxtar en gert var ráð fyrir, útgjaldavexti og vegna þess að tekjur af arðgreiðslum og sölu eigna hafa verið minni en búist var við.

Núgildandi markmið um að ná jöfnuði árið 2014 er í hættu vegna kostnaðarsamra kosningaloforða – þar á meðal loforðum um lækkun skatta og að auka stuðning vegna skuldavanda heimilanna- en fjármögnun þeirra er enn óljós. Markmið til lengri tíma hvíla að hluta til á einstökum eða óljósum aðgerðum

Leggst gegn skuldaniðurfellingu en hvetur til skoðuna á ÍLS

Framkvæmdastjórnin er sammála um að lítið svigrúm sé til lækkunar skulda heimilanna umfram það sem þegar hefur verið gert. Í þessu sambandi telur hún að áform stjórnvalda um að grípa ekki til frekari aðgerða til skuldalækkunar nema fjárhagslegt svigrúm sé til þess sé viðeigandi.

Nýjar aðgerðir eiga að beinast að þeim heimilum sem ekki hafa fengið úrlausn með núgildandi aðgerðum. Stjórnin taldi mögulegt að bæta vinnuaðferðir við framkvæmd skuldaaðlögunar.

Framkvæmdastjórnin lýsir yfir ánægju með úrbætur í bankakerfinu. Þrátt fyrir það hvetur hún stjórnvöld til að takast á við áhættu vegna arfleifðar með auknu eftirliti og með því að styrkja grundvöll fjármálastöðugleika. Hún leggur einnig til að starfsemi Íbúðalánasjóðs í heild verði endurskoðuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert