Hafa greitt 1,4 milljarða í sanngirnisbætur

Vistheimilanefnd hefur lokið störfum en hún fjallaði um starfsemi níu …
Vistheimilanefnd hefur lokið störfum en hún fjallaði um starfsemi níu vist- og meðferðarheimila. mbl.is/Golli

Búið er að greiða 1.441 milljón króna í sanngirnisbætur vegna misgjörða á vistheimilum fyrir börn. Um 900 einstaklingar hafa fengið bætur, en yfir 4.000 börn voru vistuð á þeim níu heimilum sem heimilt er að greiða bætur fyrir. Guðrún Ögmundsdóttir, sem heldur utan um verkefnið ásamt sýslumanninum á Siglufirði, segir að þetta sé búið að vera afar stórt og erfitt verkefni og hún sé búin að heyra margar sorglegar sögur.

Lög um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum voru samþykkt á Alþingi árið 2010 og voru fyrstu bæturnar greiddar í mars 2011 til þeirra sem vistaðir voru á Breiðuvíkurheimilinu. Samkvæmt lögunum má greiða bæturnar þegar nefnd sem kannar starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn hefur skilað skýrslu og komist að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið gegn börnunum. Samkvæmt þessu er heimilt að greiða bætur til níu heimila, en þau eru:

1. Vistheimilið Breiðavík

2. Heyrnleysingjaskólinn

3. Vistheimilið Kumbaravogur

4. Vistheimilið Reykjahlíð

5. Skólaheimilið Bjarg

6. Vistheimilið Silungapollur

7. Heimavistarskólinn Jaðar

8. Upptökuheimili ríkisins

9. Unglingaheimili ríkisins

Tvö ár eru liðin síðan innköllun vegna vistheimilisins Breiðavík, Heyrnleysingjaskólans og vistheimilisins Kumbaravogs lauk og er því frestur til að lýsa kröfum vegna þeirra liðinn. Enn er hins vegar hægt að skila inn kröfum vegna hinna heimilanna. Nánari upplýsingar um greiðslu sanngirnisbóta er að finna á vef um sanngirnisbætur.

Erfitt en gefandi verkefni

Guðrún Ögmundsdóttir, félagsráðgjafi og fyrrverandi alþingismaður, sér um að taka á móti umsóknum og ræða við fólkið. Hún segir þetta sé gríðarlega stórt og erfitt verkefni. Hún sé búin að heyra margar sorglegar sögur. Margir þurfi á fjölbreytti aðstoð að halda og hún sé því afar ánægð með að tekist hafi að semja við þau sveitarfélög þar sem vistheimilinu voru staðsett um að greiða fyrir sálfræðiaðstoð þessara einstaklinga. Hún segist hafa séð og heyrt eitt og annað í gegnum árin gegnum vinnu sem félagsráðgjafi, en þetta verkefni sé eitt það erfiðasta sem hún hafi fengist við. Verkefnið sé hins vegar líka mjög gefandi.

„Ég hef lagt áherslu á að vinna þetta þannig að verið sé að loka ákveðnum kafla og nú taki nýtt tímabil við,“ segir Guðrún.

Allmörgum umsóknum hefur verið hafnað, en það er vegna þess að aðeins eru greiddar bætur vegna þessara níu stofnana, en ekki annarra.

Hámarksbætur eru 6 milljónir króna

Samkvæmt lögunum geta hámarksbætur verið 6 milljónir króna. Bæturnar er vísitölubundnar og því eru hámarksbætur í dag tæplega 6,7 milljónir. Bæturnar geta verið greiddar á allt að þremur árum. Þeir sem eiga rétt á bótum undir tveimur milljónum fá allar bæturnar greiddar strax. Þeir sem eiga rétt á bótum frá 2-4 milljónum fá tvær milljónir greiddar strax og restina eftir 18 mánuði. Þeir sem eiga rétt á bótum yfir 4 milljónir fá tvær milljónir greiddar strax og restinni er skipt í tvær greiðslur sem koma eftir 18 mánuði og eftir 36 mánuði.

Bætur eru skattfrjálsar og skerða ekki aðrar greiðslur eins og t.d. úr lífeyrissjóðum eða almannatryggingum.

Halldór Þormar Halldórsson, umsjónarmaður sanngirnisbótaverkefnisins, segir að stærsti hópurinn fái bætur á bilinu 2-4 milljónir. Meðalbæturnar eru 2-3 milljónir.

Samkvæmt lögunum er send út innköllun þar sem þeir sem dvöldu á viðkomandi heimilum eru beðnir um að lýsa kröfum. Vegna persónuverndarsjónarmiða er ekki heimilt að hafa samband við hvern og einn. Þeir sem dvöldu á heimilunum hafa þrjá mánuði frá því innköllun birtist til að lýsa kröfum. Ef þeir gera það ekki á þessum tíma hafa þeir samt tíma allt að tvö ár til að lýsa kröfum, eftir það fellur bótarétturinn niður.

„Tilgangurinn með þessum greiðslum er að bæta varanlegt tjón sem fólk varð fyrir af illri meðferð á þessum heimilum. Tjón fólks er mismikið eftir heimilum og eftir tímabilum. Sumir ólust upp við verri aðstæður en aðrir. Í sumum tilvikum voru til frekar litlar upplýsingar um starfsemi heimilanna og þá réði tíminn sem einstaklingarnir dvöldu á heimilinu fjárhæð bótanna,“ segir Halldór.

Halldór segir að greiðslur sanngirnisbóta muni ljúka árið 2015. Þeir sem hafa verið að fá greiðslur í ár eru aðallega fólk sem dvaldi á Unglingaheimili ríkisins. Það hóf starfsemi árið 1945 undir nafninu Upptökuheimili ríkisins, en þar voru vistaðir unglingar sem töldust hafa brotið lög eða áttu við hegðunarvandamál að stríða. Árið 1978 var nafninu breytt í Unglingaheimili ríkisins og eftir það var starfseminni breytt. Það heimili starfaði til 1994. Á þessum árum dvöldu þar yfir 3.000 börn um skemmri eða lengri tíma á heimilunum sem ríkið rak undir þessum nöfnum.

Halldór segir að mjög erfitt hafi verið að áætla fyrirfram hversu margir kynnu að sækja um bætur. Menn hafi í upphafi búið til einhverjar áætlanir en þær hafi verið „skot í myrkri“ Menn hafi ekki vitað hvort að það kæmu 100 umsóknir eða 1.500. Þess vegna hafi verið erfitt að halda sig innan ramma fjárlaga hvað þetta varðar.

Búið að samþykkja kröfur fyrir 1.791.000 milljónir

Í uppgjöri vegna afkomu ríkissjóðs vegna fyrri helmingi ársins segir að búið sé „að greiða út samningsbætur vegna misgjörða á vistheimilum fyrir börn að upphæð 513 m.kr. sem ekki hafði verið gert ráð fyrir á þessu tímabili nema að litlu leyti.“ Í fjárlögum var reiknað með að greiðslur sanngirnisbóta næmu 89,4 milljónir á ári öllu.

Þess má svo að lokum geta að búið er að samþykkja kröfu að upphæð 1.791.000 milljónir. Hluti af því kemur með ekki til greiðslu fyrr en á næstu tveimur árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert