Tekur gríðarlega á starfsmenn

Fjölmennt lið björgunarfólks kom á vettvang.
Fjölmennt lið björgunarfólks kom á vettvang. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Mikil sorg ríkir innan Slökkviliðs Akureyrar eftir brotlendingu sjúkraflugvélar Mýflugs. Björn H. Sigurbjörnsson, starfandi slökkviliðsstjóri, segir hins vegar að öll grunnþjónusta sé tryggð, vakt sé allan sólarhringinn og raunar sé rúmlega mannað og verður áfram.

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bauð fram aðstoð sína strax eftir slysið og var hún þegin. „Við fengum nokkra ágæta menn og ég hef þá til stuðnings yfir vaktina. Þegar kemur sjúkraflug þá sendum við okkar mann en ég vil einnig hafa einn til viðbótar, til að styrkja áhöfnina um borð. Þannig að í raun höfum við tvo sjúkraflutningamenn um borð í hvert flug í staðinn fyrir einn,“ segir Björn. „Þetta er núna á meðan þetta ástand varir, við erum að vinna úr okkar áföllum og ég geri þetta fyrst og fremst með öryggi minna manna í huga.“

Björn segir það ganga að vinna úr áfallinu en það eigi eftir að taka langan tíma. Slökkviliðið hafi mætt miklum hlýhug frá Akureyringum og miklum skilningi á því ástandi sem innan liðsins er upp komið. „En það er mikill hugur í starfsmönnum þó að sjálfsögðu þurfa menn að vinna úr þessu.“ Hann segir þetta taka gríðarlega á.

Hann segir að það hafi verið mikið áfall strax þegar menn uppgötvuðu hvaða flugvél það var sem hafði brotlent. „En áfallið kemur frekar eftir á. Við erum þjálfaðir til að koma að hverjum þeim sem slasast, en eftir á verða menn að vinna úr því.“ Hann segir að starfsmenn verði í áfallahjálp eins lengi og þörf krefur.

Fundir hafa verið haldnir milli starfsmanna slökkviliðsins og Mýflugs. „Þeir fundir voru mjög góðir og það er mikill samhugur á milli þessara samstarfsaðila. Það vantar ekkert upp á það og það er vonandi ekkert annað en áframhaldandi og gott samstarf framundan.“

Björn Heiðar Sigurbjörnsson.
Björn Heiðar Sigurbjörnsson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert