Faðirinn hafði betur gegn bankanum

Svo virðist sem Landsbankinn hafi endurskoðað afstöðu sína um að …
Svo virðist sem Landsbankinn hafi endurskoðað afstöðu sína um að krefja forsjárforeldri um vottorð Kristinn Ingvarsson

„Bankinn sagði að þetta væri til að tryggja öryggi viðskiptavina. Ég velti fyrir mér hvort þetta öryggi viðskiptavina sé ekki skert,“ segir Ólafur V. Ólafsson, sem í júní var neitað um prókúru fyrir reikning dóttur sinnar. Bankinn hefur nú veitt honum prókúru, án þess að hann hafi framvísað nokkru vottorði, eins og farið hafði verið fram á.

„Ég er ánægður að heyra að bankinn reyni að tryggja öryggi viðskiptavina sinna, en við hvaða lög styðjast þeir þegar þeir veita lögheimilisforeldri barns prókúru en ekki hinu, þegar um er að ræða sameiginlega forsjá?“ segir Ólafur.

Ólafur og móðir stúlkunnar eru með sameiginlegt forræði, en stúlkan, sem er fjórtán ára og því ófjárráða, er með lögheimili hjá móðurinni. Landsbankinn gaf Ólafi og lögmanni hans áður þær skýringar að einungis það foreldri sem barnið hefði lögheimili hjá gæti fengið prókúru að reikningi barns, óháð því hvernig forsjá væri háttað. Hitt foreldrið yrði að framvísa vottorði, í hans tilviki faðernisvottorði.

Neitaði að framvísa vottorði

„Ég harðneitaði að gera það. Móðirin stelpunnar okkar var ekki beðin um að gera það til að fá prókúru þegar við skildum,“ segir Ólafur. „Ég er ekki að segja að ég eigi að fá prókúru án allra vottorða. Ég mótmæli hins vegar þessari mismunun. Annaðhvort á að krefja alla um vottorð eða enga.“ Þá hefði honum ekki borist tilkynning um að prókúra hans hefði verið felld niður við lögheimilisflutninginn.

Ólafur var ósáttur við þetta. Eftir umfjöllum mbl.is um málið og ummæli Ólafs þess efnis að hann myndi mæta í útibú bankans og hafa hátt snérist Landsbankinn í afstöðu sinni og veitti Ólafi prókúruna, án þess að Ólafur hafi framvísað umbeðnu vottorði eða að barnsmóðir hans hafi veitt honum hana.

„Hefur orðið stefnubreyting hjá bankanum? Ég hvet alla foreldra í minni stöðu að láta á þetta reyna í sínum viðskiptabanka,“ segir Ólafur. „Eða er bankinn að láta undan af því að ég ætlaði að vera með læti?“

Bankinn bað barnsmóður hans að hafa hemil á honum

Ólafur segir að ónefnd kona innan Landsbankans hafi haft samband við barnsmóður hans í þeim tilgangi að biðja hana að fá Ólaf til að láta af kröfum sínum. „Þessi kona gaf ekki einu sinni upp nafn,“ segir Ólafur. 

Barnsmóðir hans, Elísabet María, staðfestir það sem Ólafur segir. „Ég hef ekki farið fram á að prókúra Ólafs yfir reikningi dóttur okkar verði felld niður þó svo dóttir okkar búi ekki hjá honum. Eldri dóttir okkar var meira að segja með lögheimili hjá honum í einhver tvö ár, en öll hennar gögn voru í mínum heimabanka,“ segir Elísabet.

Elísabet kom af fjöllum þegar hún komst að því að prókúra Ólafs hefði verið felld niður. „Ég fékk bara svörin „þetta gengur ekki upp“ og „það er ekki hægt“ og var sagt að lögheimilið réði þessi. Svo hringir þessi kona í mig frá Landsbankanum og kvartar undan því við mig, fyrrverandi konuna hans, að hann sé að gera allt vitlaust í bankanum. Hún bað mig um að reyna að tala um fyrir honum,“ segir Elísabet, og leynir því ekki að sér þyki þetta mjög óeðlileg framkoma af fjármálastofnun. „Ólafur er fullorðinn maður. Við skildum fyrir sjö árum. Hvað viljið þið að ég geri?“ sagði Elísabet við fulltrúa Landsbankans.

Eitt yfir alla foreldra að ganga

Elísabet tekur undir með Ólafi að það eigi eitt yfir alla foreldra að ganga. „Ef það er verið að hugsa um hagsmuni barnsins þá á ég alveg eins að sýna skilríki og vottorð eins og barnsfaðir minn,“ segir Elísabet. „Það er alltaf verið að tala um jafnrétti, launajafnrétti og þannig. Þegar kemur að jafnrétti feðra, þá er það bara ekki til,“ segir Elísabet. „Þetta er bara misrétti. Ég þoli ekki svona misrétti.“

„Svo má hann bara allt í einu núna sjá gögnin. Hvað breyttist?“ segir Elísabet, sem segist styðja hann heilshugar í baráttu sinni og vill vita hvort fleiri hafi sömu sögu að segja og hvort stefnubreyting hafi orðið í þessum efnum innan bankans. „Ég hef ekki farið í bankann til að veita honum neinn aðgang eins og bankinn bað mig um að koma og gera til að komast í kringum þetta.“

Föður mismunað í Landsbankanum

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert