Plata grunlausa vísindamenn

Snæfellsjökull.
Snæfellsjökull. mbl.is/Sigurður Bogi

Óprúttnir einstaklingar hafa nýtt sér vísindatímaritið Jökul, rit jöklarannsóknarfélags Íslands, og sett upp tvær falskar heimasíður til að innheimta gjald fyrir birtingu í tímaritinu. Fjöldi grunlausra vísindamanna hefur borgað fyrir birtingu í tímaritinu án þess að vera nokkurn tímann í samskiptum við raunverulega forsvarsmenn þess. 

Jökull er viðurkennt alþjóðlegt vísindatímarit um jarðfræði og hefur verið gefið út frá árinu 1951. Bryndís Brandsdóttir, einn ritstjóra tímaritsins, segir að nokkrir vísindamenn hafi lent í klónum á þeim aðilum sem settu upp fölsku vefsíðuna í nafni tímaritsins.

„Þessir óprúttnu aðilar skoða gagnagrunn sem segir til um styrk viðkomandi tímarits. Þeir falsa svo vefsíður í þeirra nafni til þess að græða á vísindamönnum sem vilja koma greinum sínum í birtingu,“ segir Bryndís.  

Borga 5-600 dollara fyrir birtingu

Prentunargjald hefur rutt sér til rúms á síðustu 10 árum, sem leið vísindatímarita til að komast hjá því að rukka áskriftargjöld. Í stað þess að áskrifendur borgi fyrir tímaritin, borga vísindamennirnir sem birta greinarnar fyrir kostnaðinn við útgáfuna. Þetta er kjarninn í hreyfingunni fyrir opnum aðgangi (open access).

Fyrir hverja birta grein greiða vísindamenn 5-600 dollara sem jafngildir um 60-72 þúsund krónum. „Menn eru með þessu móti að reyna að græða á grunlausum vísindamönnum,“ segir Bryndís.

Hún segir að á annarri fölsku vefsíðunni komi meðal annars fram hennar nafn. „Það reyndist okkar lán, því fólk hafði samband við mig sem hafði átt í vandræðum með að borga til fölsku vefsíðunnar. Ég brást strax við og hef verið í samskiptum við fólk um víða veröld vegna þessa,“ segir Bryndís.

Kannast ekki verið greinar sem eiga að hafa birst

Hún hefur ekki yfirsýn yfir það hversu margir hafi orðið fyrir barðinu á svindlurunum en samkvæmt vefsíðunni google scholar, þar sem finna má yfirlit yfir birtar greinar í vísindatímaritum, koma fram greinar sem eiga að hafa birst í Jökli í ár. Bryndís kannast hins vegar ekkert við þessar greinar. „Jökull er jarðvísindatímarit en á fölsku vefsíðunni útvíkka þeir tímaritið og segja það einnig fjalla um önnur vísindi,“ segir Bryndís.

Á annarri af fölsku vefsíðunni er uppgefið símanúmer alþjóðaskrifstofu Háskóla Íslands. „Fólkið á skrifstofunni þar hefur lent í því að svara fjölda fyrirspurna vegna málsins,“ segir Bryndís. Hún segir að fyrir vikið hafi tekist að afstýra mörgum svikum og hafi hún fengið þakklæti frá fólki um allan heim eftir að hún hafði útskýrt málið.

Getur ekkert gert

Eftir að upp komst um málið uppfærði Jökull heimasíðu sína. Engu að síður kemur falska heimasíðan fyrst upp á google þegar leitað er eftir tímaritinu.  „Ég ákvað að hafa lénið hið sama og er á svikasíðunni og er búin að hafa samband við vefþjóninn sem hýsir hina síðuna. Hann er í Kanada, en þeir segjast ekkert geta gert. Ég get því í raun lítið gert nema að fá mér amerískan lögfræðing,“ segir Bryndís. Hún segir að oft hafi vísindatímarit gripið til þess ráðs að kaupa fölsku lénin til þess að komast hjá frekari óþægindum.

Það var bókasafnsfræðingurinn Jeffrey Beall sem benti á málið í bloggfærslu. Beall starfar við háskólann í Denver í Colorado. Arnar Pálsson erfðafræðingur við HÍ og bloggari gerði málið svo að umfjöllunarefni í færslu á bloggi sínu. 

Heimasíða Jökuls:

Gamla heimasíða Jökuls

Önnur falska heimasíðan: jokulljournal.com

Hin falska heimasíðan: jokuljournal.org

Bryndís Brandsdóttir
Bryndís Brandsdóttir
Jökull er tímarit jöklarannsóknafélags Íslands og hefur komið út frá …
Jökull er tímarit jöklarannsóknafélags Íslands og hefur komið út frá árinu 1951.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert