2% af íbúðum landsins í eigu Íbúðalánasjóðs

Í júlílok átti Íbúðalánasjóður alls 2.578 íbúðir
Í júlílok átti Íbúðalánasjóður alls 2.578 íbúðir mbl.is/Sigurður Bogi

Vanskil útlána hjá Íbúðalánasjóði námu samtals 9,1 milljarði króna í júlílok. Þar af voru vanskil einstaklinga 5 milljarðar en vanskil lögaðila 4,1 milljarður króna.

Vanskil eða frystingar náðu samtals til 14,4% af lánasafni sjóðsins í júlílok, sem samsvarar ríflega 116 milljörðum króna. Í upphafi árs var þetta hlutfall 14,7% og hefur það því lækkað lítillega.

„Það væru jákvæðar fréttir ef ekki kæmi á móti veruleg aukning á fullnustueignum, þ.e. íbúðum sem sjóðurinn hefur eignast vegna vanskila,“ segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.

Í júlílok átti Íbúðalánasjóður alls 2.578 íbúðir, en til samanburðar má nefna að íbúðir á landinu öllu voru ríflega 131 þúsund í árslok 2011. Lætur því nærri að 2% af öllum íbúðum í landinu séu í eigu ÍLS. Íbúðum í eigu sjóðsins fjölgaði um 350 frá áramótum til júlíloka, eða um tæplega 16%, og raunar er athyglisvert að vanskilahlutfallið hafi ekki lækkað meira í ljósi þessa, segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Ríflega helmingur fasteigna sjóðsins var áður í eigu lögaðila, en tæpur helmingur í eign einstaklinga.

„Til að bæta gráu ofan á svart er verulegur hluti fasteigna í eigu ÍLS á svæðum þar sem fasteignamarkaður hefur átt undir högg að sækja og atvinnuástand gjarnan verið með verra móti. Þannig voru flestar íbúðirnar á Suðurnesjum, 817 talsins, og þá átti ÍLS 364 íbúðir á Suðurlandi og 265 íbúðir á Austurlandi.

Á höfuðborgarsvæðinu átti sjóðurinn 597 eignir, á Vesturlandi 275 eignir og á Norðurlandi eystra 166 eignir. Aðeins voru því 23% fasteigna í eigu ÍLS á höfuðborgarsvæðinu og 77% á landsbyggðinni, þar af voru 32% allra eigna sjóðsins á Suðurnesjum.

Líklega mun því taka talsverðan tíma að minnka þennan eignastabba, sér í lagi ef fullnustueignir halda áfram að streyma í fang sjóðsins, en frá áramótum hefur ÍLS selt 127 eignir. Í júlílok voru 1.197 íbúðir í útleigu, 860 í sölumeðferð en 283 íbúðir voru óíbúðarhæfar, ýmist vegna þess að þær voru ekki fullkláraðar eða vegna aldurs og ástands,“ segir í Morgunkorni.

Íbúðalánasjóður á 817 íbúðir á Suðurnesjum
Íbúðalánasjóður á 817 íbúðir á Suðurnesjum mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert