„Spurning hvort Ríkisútvarpið lifir“

Björn Bjarnason, fyrrverandi menntamálaráðherra.
Björn Bjarnason, fyrrverandi menntamálaráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Hér er um sögulega pólitíska þróun að ræða sem ber með sér að núverandi stjórnendum Ríkisútvarpsins hefur tekist að skapa sér óvild innan stjórnmálaflokks sem fyrir fáeinum árum mátti ekki heyra á það minnst að hróflað yrði við Ríkisútvarpinu.“

Þetta segir Björn Bjarnason, fyrrverandi menntamálaráðherra, á heimasíðu sinni í tilefni af umræðum á vettvangi stjórnmálanna um málefni Ríkisútvarpsins. Rifjar hann upp að þegar hann hafi verið ráðherra menntamála í ríkisstjórnum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins hafi framsóknarmenn ekki mátt heyra „orðinu hallað um Ríkisútvarpið og stóðu gegn öllum róttækum breytingum á því.“ Nú nái hins vegar óánægja með það langt inn í þingflokk þeirra.

Vísar Björn þar bæði til gagnrýni Vigdísar Hauksdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, í garð Ríkisútvarpsins og Frosta Sigurjónssonar. Þá hafi formaður flokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, skrifað harða ádeilugrein um það í Morgunblaðið. Hann tekur síðan undir gagnrýni á Ríkisútvarpið og segir: „Sjónarhorn fréttastofu ríkisútvarpsins er ekki aðeins á skjön við viðhorf meirihluta þjóðarinnar heldur hefur stofnunin brotið brýr að baki sér hjá hinum ráðandi pólitísku öflum.“

Björn lýkur skrifum sínum á þeim nótum að forystumenn Ríkisútvarpsins bjargi ekki málum með því að ráðast á Morgunblaðið og ritstjóra þess. „Forstokkun er ríkjandi á fréttastofunni í Efstaleiti og þeir sem eiga að vera óhlutdrægir hafa gripið til vopna  og dregið víglínu á þann hátt sem aldrei hefur verið gert áður. Þeir eru dæmdir til að tapa og spurning hvort Ríkisútvarpið lifir,“ segir fyrrverandi ráðherra menntamála.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert