Brýrnar tilbúnar í september

Burðarvirki göngu og hjólabrúa yfir Elliðaárósa.
Burðarvirki göngu og hjólabrúa yfir Elliðaárósa. Af vef Reykjavíkurborgar

Framkvæmdir við nýja göngu- og hjólaleið yfir Elliðaár ganga vel og nú eru risin burðarvirki tveggja brúa yfir Elliðaárósa á nyrsta odda Geirsnefs.

Göngu- og hjólabrautir eru aðskildar og eykur það umferðaröryggi og gerir leiðina greiðari, segir í tilkynningu. Umferð hjólandi og gangandi yfir Elliðaár er mikil og má gera ráð fyrir að hún aukist með tilkomu nýju leiðarinnar, sem er styttri, öruggari og þægilegri en núverandi leiðir. Áætlað er að verkinu ljúki í lok september.

Brýrnar eru mikið mannvirki og ná burðarrammar þeirra í 18 metra hæð. Brýrnar eru um 36 metrar á lengd hvor og göngu- og hjólastígar sem lagðir eru að brúnum og milli þeirra yfir Geirsnef eru um 280 metrar.

Girðing til að skilja að göngustíg og hundasvæði

Reykjavíkurborg og Vegagerðin efndu til opinnar hugmyndasamkeppni um byggingu brúnna. Í hönnun er gert ráð fyrir útsýnispalli á Geirsnefi, en gerð hans bíður seinni tíma. Girðing til að skilja að göngustíg frá hundasvæði verður sett upp í september. Á henni verða tvö hlið þannig að aðkoma fyrir hundaeigendur verður greið frá göngustíg.

Verkið hefur gengið samkvæmt áætlun að frátöldu því að seinkun varð á afhendingu stálbitanna í burðarvirki brúnna. Við framkvæmdir á árbökkum var þess gætt að þær trufluðu ekki laxagengd en farið var eftir tímamörkum sem Veiðimálastofnun ráðlagði um verktíma, segir ennfremur í tilkynningu.

Burðarvirki göngu og hjólabrúa yfir Elliðaárósa.
Burðarvirki göngu og hjólabrúa yfir Elliðaárósa. Af vef Reykjavíkurborgar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert