Lesskimanir ekki teknar saman

63% nemenda í 2. bekk geta lesið sér til gagns, …
63% nemenda í 2. bekk geta lesið sér til gagns, sem er 6 prósentustigum lægra en í könnuninni 2012. Kristinn Ingvarsson

Ekki eru teknar saman niðurstöður lesskimana í grunnskólum í Hafnarfirði, Mosfellsbæ, Seltjarnarnesi eða á Akureyri á sama hátt og gert er í Reykjavík, en mbl.is flutti af því fréttir á dögunum að samkvæmt nýjustu lesskimun í grunnskólum í Reykjavík gætu aðeins 63% nemenda í 2. bekk lesið sér til gagns og að munur á kynjunum færi vaxandi.

Samþykkt var einróma tillaga fulltrúa vinstri grænna og sjálfstæðismanna á fundi skóla- og frístundaráðs um að niðurstöður lesskimunarkönnunar yrðu kynntar fyrir nemendum og foreldrum og að foreldrar fengju upplýsingar um frammistöðu barna sinna. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg er foreldrum þegar tilkynnt um það ef börn þeirra eiga í lestrarerfiðleikum, m.a. miðað við niðurstöður lesskimunarkannana.

Í Hafnarfirði er lesskimun framkvæmd í grunnskólum og notuð ýmis tæki til að greina lestrarvanda nemenda. Niðurstöður lesskimunarkannana eru ekki teknar saman fyrir allt sveitarfélagið. Slík samantekt er í bígerð en ekki er ljóst hvernig eða hvenær henni verður hrint í framkvæmd.

Á Akureyri er lesskimun gerð en engar sameiginlegar niðurstöður fyrir alla skóla teknar saman. Sérkennarar leggja skimunina fyrir og taka saman niðurstöður í sínum skólum.

Í Mosfellsbæ eru gerðar reglulegar lesskimunarkannanir en niðurstöður eru ekki teknar saman og birtar. Á Seltjarnarnesi hefur grunnskólinn sínar eigin lestraráætlanir og prófar út frá þeim, en þar eð aðeins einn grunnskóli er í sveitarfélaginu er ekki gerður samanburður við aðra skóla heldur niðurstöður skólans teknar saman og bornar saman við niðurstöður fyrri ára.

Frétt mbl.is: Einungis 63% geta lesið sér til gagns

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert