Hitafundur um Hofsvallagötuna

Salur Hagaskóla var þéttsetinn og ljóst að íbúar Vesturbæjar láta …
Salur Hagaskóla var þéttsetinn og ljóst að íbúar Vesturbæjar láta sig skipulag Hofsvallagötuna varða. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Fjölmennur íbúafundur var haldinn í Hagaskóla í kvöld, þar sem fundarefnið var hinar umdeildu breytingar á Hofsvallagötu. Töluverður hiti er í íbúum Vesturbæjar vegna málsins og tóku margir til máls.

Kristinn Fannar Pálsson, íbúi við Hagamel, lagði fram undirskriftir 661 íbúa sem safnað var í Melabúðinni til að mótmæla framkvæmdunum.

Fulltrúar borgarinnar voru Ólöf Örvarsdóttir, sviðstjóri umverfis- og skipulagssviðs, og Ólafur Bjarnason samgöngustjóri Reykjavíkurborgar. Þau hófu fundinn á því að biðjast afsökunar á skorti á samráði við íbúa.

Einnig lögðu þau fram tillögu um að íbúar tilnefndu fulltrúa, einn eða fleiri, til að vinna í samvinnu við borgina um nánari útfærslu á framkvæmdunum. Í lok fundar hafði samkomulag náðst um að þrír íbúar sem tjáðu sig á fundinum tækju þátt að ákveða framhaldið með borgaryfirvöldum.

Sjá framhaldsfrétt mbl.is af íbúafundinum: „Reykjavík er bílaborg“

Tilraun sem mistókst

Salur Hagaskóla er þétt setinn og ljóst að margir íbúar Vesturbæjar láta sig málefni Hofsvallagötunnar varða. Talsverður hiti var í fundarmönnum og sló meðal annars í brýnu þegar fundarstjóri reyndi að setja tímatakmarkanir á framsögur fólks úr sal.

Fulltrúar borgarinnar lögðu áherslu á að breytingarnar væru ekki varanlegar heldur prufa, til þess gerð að fá tilfinningu fyrir því hvernig ný hönnun myndi virka áður en ráðist yrði í dýrar framkvæmdir.

Á móti virtist megintónninn hjá íbúum vera sá að tilraunin væri illa heppnuð. En þótt margir mótmæltu framkvæmdunum harðlega voru líka aðrir sem tjáðu ánægju sína með að breytingar væru gerðar á Hofsvallagötu, og því ljóst að ekki eru allir á einu máli í Vesturbænum. 

Gerð var tilraun úr sal í lok fundar til að kalla fram atkvæðagreiðslu um hvort hætta ætti alfarið við breytingarnar og hreinsa götuna nú þegar. Af því varð hins vegar ekki. Niðurstaðan varð sú að ræða reynsluna til þessa og framhaldið í nánara samráði við fulltrúa íbúa, og má ætla að einhverjar breytingar verði gerðar áður en langt um líður. 

Þetta sögðu íbúar á fundinum:

„Allar aðgerðir hafa afleiðingar og ein helsta afleiðing þessara aðgerða er að umferðarflæði, alveg óumdeilt, leitar annað og þá fer maður að efast um tilganginn.“

„Við megum vera stolt af Hofsvallagötu. Þetta er falleg gata, „boulevard“ okkar hér í Vesturbænum og frá efsta punkti hennar er sjónlína beint niður að sjó sem er einstakt í þessu borgarumhverfi. Ég myndi vilja sjá gerða hönnun alveg frá toppi og niður að sjó.“

„Tilgangurinn er mjög góður, að hægja á umferð. Á þessari öld hafa hátt í 200 manns látið lífið og helsti orsakavaldurinn í því er hraði. Það er mjög mikilvægt að draga út honum, sérstaklega hér í íbúðahverfum með börnum. Mér finnst mikið til unnið, þótt menn þurfi aðeins að bíða lengur á rauðum ljósum, ef börnin eru óhult.“

„Hofsvallagatan er svona boulevard. Það liggur fyrir að það er ekki vandamál með hraðakstur þar. Þess vegna finnst mér verið að leita lausna á vandamáli sem ekki er fyrir hendi og um leið verið að skerða flutningsgetu um umferðargötu.“

„Þetta var reynt mjög svipað á Seltjarnarnesi og líka á Melabraut, en gekk því miður ekki, út af snjómokstri og öðru. Það var útilokað að snjómoka þetta, ýtur gátu ekki farið þarna um, sem endaði með því að þetta var slegið af.“

„Það góða við að búa í Vesturbænum er að hér getum við farið okkar ferða gangandi. Við getum gengið út í búð og gengið í vinnuna. Ég er gangandi vegfarandi og ég fagna því að það sé verið að auka öryggi okkar.“

„Umferðarflæðið um Hofsvallagötu er um 10 þúsund bílar á dag [...] Þetta umferðarflæði hefur gengið mjög vel í gegnum tíðina. Þessi gata ber mjög vel 10 þúsund bíla og hefur ekki verið neitt vandamál.“

„Þegar ég horfði á teikningarnar fékk ég á tilfinninguna að þetta væri nemendaverkefni. Þetta lítur vel út á blaði, en er skrýtið í framkvæmd [...] Hugmyndirnar eru góðar, en þarf að vanda betur til verka.“

Breytingarnar litríku á Hofsvallagötu leggjast misvel í íbúa.
Breytingarnar litríku á Hofsvallagötu leggjast misvel í íbúa. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Skiptar skoðanir komu fram á fundinum en íbúar virðast almennt …
Skiptar skoðanir komu fram á fundinum en íbúar virðast almennt þeirrar skoðunar að núverandi breytingar séu ekki nógu góðar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert