„Reykjavík er bílaborg“

Íbúafundurinn í Hagaskóla í kvöld var fjölmennur.
Íbúafundurinn í Hagaskóla í kvöld var fjölmennur. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Það er þannig að Reykjavík er bílaborg. Hún er ekki hjólaborg og varla fyrir gangandi heldur,“ sagði Páll Hjaltason, formaður umhverfis- og skipulagsráðs, á fjölmennum íbúafundi í Hagaskóla í kvöld. Hann sagði það þó ekki markmiðið að þrengja að bílaumferð að óþörfu.

Fulltrúar skipulagsyfirvalda hjá Reykjavíkurborg ræddu við íbúa Vesturbæjar í kvöld um breytingarnar á Hofsvallagötu, sem sumir hafa fagnað en fleiri fordæmt. Ólöf Örvarsdóttir, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs, tók það sérstaklega fram að Jón Gnarr og Gísli Marteinn Baldursson væru ekki mennirnir á bak við breytingarnar, þótt margir vildu draga þá til ábyrgðar.

Lengi verið vilji til að draga úr umferðarhraða

Ólöf, sem sjálf býr við Víðimel, benti á að framkvæmdirnar á Hofsvallagötu ættu sér langan aðdraganda því allt frá árinu 2007 hefðu verið uppi óskir um að draga úr umferðarhraða þar. Haustið 2011 var haldinn íbúafundur á Hótel Sögu þar sem rætt var um Hofsvallagötu og var niðurstaðan sú að götuna skyldi endurhanna með lægri umferðarhraða, bættu umferðaröryggi og bættu aðgengi fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur.

Einhvers staðar í ferlinu virðast skipulagsyfirvöld þó hafa farið út af sporinu því mikil óánægja ríkir með þá útfærslu sem varð ofan á við Hofsvallagötu. Eins og mbl.is sagði frá fyrr í kvöld bað Ólöf íbúa afsökunar á skorti á samráði og verða nú gerðar tilraunir til að bæta úr því, ef marka má niðurstöðu fundarins.

Að sögn Ólafar telst Hofsvallagatan vera s.k. biðstöðuverkefni. Í ljósi þess að varanlegar framkvæmdir, þar sem götur eru rifnar upp með rótum, kosti mörg hundruð milljónir, hafi verið ákveðið að gera fyrst prufu á útfærslunni. Sú prufa virðist hafa sýnt að núverandi útfærsla virki ekki sem skyldi. 

Aðspurð um kostnað við núverandi framkvæmdir sagði Ólöf að hann væri innan við 20 milljónir og bauðst til að leggja fram sundurliðun á upphæðinni á næstu dögum.

Ekki endanleg hönnun

„Þetta var prufa, dýr sem slík en ástæða þess að við fórum ekki í varanlegar framkvæmdir þarna, þótt það sé löngu tímabært, er að þarna viljum við horfa á hverfisskipulag sem tekur langan tíma að vinna [...] Það eru kannski svona þrjú ár þar til við getum farið í varanlegar framkvæmdir, þannig að þetta er tímabundið inngrip,“ sagði Ólöf.

Ólafur Bjarnason, samgöngustjóri Reykjavíkurborgar, tók undir og sagði að Hofsvallagatan hefði verið til skoðunar í allmörg ár. Athugasemdir sem nú hefðu komið fram yrðu allar skoðaðar. 

„Tillagan sem nú er skoðuð er eins konar bráðabirgðalausn [...] Þessar bráðabirgðaframkvæmdir koma til góða við endanlega hönnun, því við fáum að sjá hvernig gatan tekur við þessum breytingum.“

Skoða hvað megi bæta og læra

Páll Hjaltason, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, sagði í lok fundarins að breytingarnar á Hofsvallagötu væru liður í tilraun til að gera öðrum samgöngumátum en bílnum rými til að bregðast við þeirri staðreynd að Reykjavík sé fyrst og fremst hönnuð fyrir bíla, en ekki gangandi og hjólandi.

„En það er ekki markmiðið að þrengja að bílaumferð að óþörfu, fyrir utan það að hægja á akstri þar sem tilefni er til vegna umferðaröryggis.“

Hámarkshraði við Hofsvallagötu er 50 km/klst en víða í íbúðagötum er hann 30 km/klst. Það viðmið er ekki tilviljun því rannsóknir hafa sýnt að þegar ekið er á gangandi vegfarenda aukast líkurnar á alvarlegum meiðslum mjög um leið og hraðinn er orðinn meiri en 30 km/klst.

Af fundinum mátti þó ráða að misjafnt sé hvort Vesturbæingar líti á Hofsvallagötu sem umferðaræð eða íbúagötu. Páll sagði að sérfræðingum hjá borginni hafi reiknast til að Hofsvallagata væri óþarflega þröng fyrir þann umferðarþunga sem um hana fer.

Páll sagði þó áhugavert að heyra athugasemdir íbúa um að umferðin beinist í auknum mæli inn í aðrar götur í staðinn og sagði þetta allt eitthvað sem yrði að skoða. 

„Það má segja að þetta sé tilraun sem hefur tekist vel að því leyti að það eru ótrúlega margir sem hafa lýst skoðun sinni á henni [...] Við þurfum að skoða þessa framkvæmd, hvað má bæta og hvað við getum lært af henni.“

Hitafundur um Hofsvallagötuna

Hjólastígur hefur verið lagður beggja megin við Hofsvallagötu.
Hjólastígur hefur verið lagður beggja megin við Hofsvallagötu. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Vesturbæingar fjölmenntu á íbúafund í Hagaskóla í kvöld og margir …
Vesturbæingar fjölmenntu á íbúafund í Hagaskóla í kvöld og margir létu í sér heyra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert