Slátrun hófst hjá Norðlenska í dag

Sigmundur Ófeigsson framkvæmdastjóri Norðlenska sýnir gestum sínum afurðir fyrirtækisins.
Sigmundur Ófeigsson framkvæmdastjóri Norðlenska sýnir gestum sínum afurðir fyrirtækisins. mbl.is

Slátrun hófst hjá Norðlenska á Húsavík í dag og var slátrað um 550 fjár. Sigmundur Ófeigsson, framkvæmdastjóri Norðlenska, segist ekki hafa orðið var við neinn þrýsting frá bændum að flýta slátrun þrátt fyrir að nauðsynlegt hafi reynst að flýta göngum.

Sigmundur segir að slátrun fari hægt af stað. Það þurfi smá tíma að slípa saman mannskap og tæki. Ráðgert sé að slátrun verði komin á fullt í næstu viku. Hann sagði að ef óskir komi frá bændum um að hraða slátrun verði það skoðað. Það sé t.d. hægt með því að slátra um helgar.

Réttað verður víða á Norðurlandi á morgun og föstudag, en það er um hálfum mánuði fyrr en áætlað var. Sigmundur segist telja að bændur leggi aðaláherslu á að koma fénu niður í heimahaga. Framhaldið ráðist svo m.a. af veðrinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert