Hittust aftur 39 árum síðar

Frá vinstri: Erna Hannesdóttir (móðir Ólafar), Ólöf Fanný Hjartardóttir og …
Frá vinstri: Erna Hannesdóttir (móðir Ólafar), Ólöf Fanný Hjartardóttir og Yuri Salnakov við gömlu Árbæjarkirkjuna. Ómar Óskarsson

„Ég fékk heldur óvenjulegt símtal í morgun þar sem ég var spurð hvort ég héti Ólöf Fanný og hvar ég hefði verið skírð,“ segir flugfreyjan Ólöf Fanný Hjartardóttir og viðurkennir að spurningarnar hafi komið henni í opna skjöldu. Símtalið var frá Önnu Eiríksdóttur, en hún leitaði að konu sem hefði verið skírð í kirkjunni við Árbæjarsafn haustið 1974 og væri því um fertugt í dag.

Voru óvart viðstaddir skírn lítillar stúlku

Rússneski kvikmyndagerðarmaðurinn Yuri Salnikov er staddur hér á landi um þessar myndir vegna 70 ára afmælis vináttutengsla Rússlands og Íslands á þessu ári. Hann dvaldi hér á landi árið 1974 og vann að kvikmynd vegna 1.100 ára afmælis byggðar á Íslandi. Með í för var íslenski kvikmyndagerðarmaðurinn Magnús Jónsson, en þeir námu við sama kvikmyndaskóla í Moskvu og útskrifuðust þaðan árið 1964.

Þeir félagar mynduðu meðal annars kirkjur hér á landi og voru Magnús og Yuri óvart viðstaddir skírn stúlku í gömlu kirkjunni við Árbæjarsafnið. Yuri reyndi síðar að hafa uppi á konunni, en án árangurs. Í þessari fjórðu ferð sinni til Íslands ákvað hann þó að reyna aftur og fékk Önnu Eiríksdóttur, kunningakonu sína, til að reyna að hafa uppi á Ólöfu Fanneyju. Það tókst og hittust þau í hádeginu í dag.

Leitaði án árangurs í kirkjubókum hér á landi

„Anna sagði  mér að Yuri væri staddur hér á landi, langaði að hitta mig og sjá hvernig hefði ræst úr litlu stúlkunni ,“ sagði Ólöf Fanný í samtali við mbl.is. „Hann sýndi mér þennan litla bút sem tekinn var upp þegar ég var skírð.“ Ólöf segir að það hafi verið frábært að sjá myndbrotið. „Ég sá ömmur mínar á lífi í upphlut, þetta var yndisleg upplifun,“ bætir hún við og segir þetta hafi verið tilfinningarík stund. Yuri ætlar að færa Ólöfu myndbrotið að gjöf áður en hann yfirgefur landið á morgun.

Ólöf segir að Yuri hafi komið hingað til lands fyrir 10 árum og reyndi hann þá einnig að finna hana. Yuri fletti meðal annars upp í kirkjubókum án árangurs. „Hann reyndist vera með rangt nafn og því fann hann mig ekki þá,“ segir Ólöf. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Ólöf kemst í tengsl við Rússland vegna myndbrotsins frá skírninni en rússneska ríkissjónvarpið tók viðtal við Önnu þegar hún var á fermingaraldri. Þá lék mönnum einnig forvitni á að vita hvað hefði orðið um ungbarnið sem brá fyrir í myndinni um Ísland.

„Yuri hefur gert 104 kvikmyndir, bæði fyrir sjónvarp og kvikmyndahús,“ segir Anna Eiríksdóttir. Hún ferðaðist ásamt vinkonu sinni Alexöndru Kuregej Argunovu til Rússlands í sumar, en sú síðarnefnda var á tónleikaferðalagi þar í landi. Í Rússlandi hitti Kuregej hinngamla vin sinn iYure og ræddu þau Anna um ferðir hans til Íslands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert