Háskólinn „huglaus smáborgari“

Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins tekur upp hanskann fyrir Jón Baldvin …
Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins tekur upp hanskann fyrir Jón Baldvin Hannibalsson. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Það er illt í efni þegar æðsta menntastofnun landsins bregður sér í hlutverk huglausa smáborgarans. Þá skóla sem ætla sér að komast í hóp þeirra bestu má ekki skorta hugrekki,“ segir Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í bloggfærslu í dag um mál Jóns Baldvins Hannibalssonar.

Brynjar segir HÍ hafa látið undan ofstæki „háværa fólksins“ með því að draga til baka boð til Jóns Baldvins um kennslu í einum kúrsi. Hann er ekki fyrsti þingmaðurinn til gagnrýna framgöngu háskólans, því Ögmundur Jónasson bloggaði um málið í gær og sagði skólann hafa brotið á mannréttindum Jóns Baldvins.

Ráðist að mikilvægum stofnunum ríkisins

Brynjar segir mál Jóns Baldvins ekkert einsdæmi um „friðkaupastefnu við ofstækisliðið“.

„Brennuvargarnir hafa ráðist með skipulögðum hætti að mikilvægum stofnunum ríkisins, svo sem eins og lögreglu, dómstólum, þjóðkirkjunni og Háskóla Íslands, jafnvel í búningi mannréttinda og lýðræðis, þótt hinn ofstækisfulli pólitíski raunveruleiki blasi við.

Hefur brennuvörgunum orðið vel ágengt vegna hugleysis okkar. Og dæmin eru fjölmörg. Lögreglan leysti yfirmann kynferðisbrotadeildarinnar frá störfum vegna þess að brennuvargarnir voru ekki sáttir við varnaðarorð hans sem gætu nýst til að fækka kynferðisbrotum. Rútubílstjóri var hrakinn frá störfum vegna dóms í kynferðisbrotamáli, sem hann þó hafði afplánað. Hótel Saga sýndi af sér fádæma hugleysi þegar fólk frá Ameríku var hrakið á brott vegna atvinnu þeirra við gerð kynlífsmynda í heimalandi sínu. Óþarfi er að rifja upp geðveikina kringum mál Egils Einarssonar og allt hugleysið tengt því.

Svo eru önnur dæmi þar sem brennuvargarnir komust áleiðis en kannski ekki alla leið. Má þar nefna mál guðfræðikennara við Háskóla Íslands og nýlegt dæmi vegna væntanlegrar heimsóknar predikarans Franklins Graham,“ bloggar Brynjar á Pressunni.

Jón Baldvin Hannibalsson.
Jón Baldvin Hannibalsson. mbl.is/Ragnar Axelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert