Hátterni hvalanna ráðgáta

Frá höfninni í Rifi eins og sést eru fjölmargir hvalir …
Frá höfninni í Rifi eins og sést eru fjölmargir hvalir inni í höfninni. mbl.is/Alfons Finnsson

Engar skýringar eru á því hvers vegna 50-70 grindhvalir syntu inn í höfnina í Rifi í gær. Ýmsar tilgátur eru uppi um hvers vegna hvalirnir haga sér svona. Meðal annars að breytileiki í segulsviði jarðar trufli þá að sögn Jóhanns Sigurjónssonar, forstjóra Hafrannsóknastofnunar og hvalasérfræðings.

Jóhann hefur áður orðið vitni að slíku hátterni hjá grindhvölum árið 1982. „Þá komu um 360 grindhvalir inn fyrir Töskuvita á Rifi,“ segir Jóhann. Spurður um hvers vegna hvalirnir sýni þetta hátterni segir Jóhann að engar vísindalegar skýringar séu á því. „Það eru alls konar kenningar um þetta. Meðal annars að þeir ruglist vegna breytinga á segulsviði. Þeir eru háðir segulsviði jarðar til þess að átta sig. Síðan er önnur kenning um að þetta sé einhvers konar sjúkleiki í skynfærum hvalanna, og þá forystuhvalsins. Hugsanlega vegna veðurfars eða vegna truflana frá segulsviði jarðar og hópurinn eltir. Oft þegar reynt er að bjarga svona vöðum, þá leita þær aftur að landi. Það voru gerðar miklar tilraunir í Rifi um árið, til að bjarga þeim. Þá náðist að koma hluta þeirra út aftur,“ segir Jóhann.

Hann segir að til séu sögur í annálum langt aftur í tímann af hvalavöðum sem ganga á land. „Grindhvalir lifa í stórum vöðum og þeir geta jafnvel skipt þúsundum. Þeir lifa á miklu dýpi og eru miklar smokkfisksætur,“ segir Jóhann.

Hann segir að þetta hátterni sé ekki einskorðað við norðurhvel jarðar. Meðal annars séu sögur af grindhvalavöðum sem ganga á land í Ástralíu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert