Settu sig í hættu fyrir ljósmyndir

Spænskur ljósmyndari og fylgdarlið settu sig í hættu á hverasvæðinu við Seltún í Krísuvík í dag þegar fólkið fór út fyrir merkta göngustíga til að ná betri myndum. Landvörður í Reykjanesfólkvangi segir það koma skýrt fram hvar megi vera og hvar ekki. Hann hafi séð ljót slys þegar fólk brennist.

Myndirnar af fólkinu voru teknar snemma í dag. Í bréfi sem fylgdi þeim segir að einum úr fylgdarliðinu hafi verið gert að ganga út af göngustígnum og inn á háhitasvæðið. Þar hélt hann á spegli meðan myndað var. Margir hverir eru á svæðinu, bæði leir- og gufuhverir. Þeir eru um 100 gráðu heitir og einnig jarðvegur utan stígakerfisins ef menn stíga niður úr honum.

Óskar Sævarsson, landvörður í Reykjanesfólkvangi, segir að af myndinni að dæma sé maðurinn öruggur nákvæmlega þar sem hann stendur, en ekki þurfi nema tvö skref aftur á bak til að stíga niður úr jarðveginum eða ofan í hver. Því megi segja að mildi sé að ekki hafi slys orðið. Þá viti hann ekki hvar fólki gekk um eftir eða fyrir myndatökuna.

„Ég hef séð mjög ljót slys þar sem fólk gekk að hver og steig niður úr jarðveginum. Hann getur litið út fyrir að vera öruggur en þrátt fyrir það mallar undir. Fólk stígur niður og moldin er hundrað gráðu heit og ef það er vatn þá er það náttúrlega bara bruni. Þetta er bara eins og að vera með sjóðandi vatn í potti á eldavél og stíga í vatnið,“ segir Óskar.

Hann segir að stórir hópar sjálfboðaliða hafi undanfarin ár unnið að stígakerfinu undir stjórn Umhverfisstofnunar. „Það er alveg skýrt og skorinort hvar fólk á að vera og var það á ekki að vera. Og það eru ekki gefin nein leyfi til að fara út fyrir stígana.“

Þrjú ár eru síðan síðast þurfi að hringja á sjúkrabíl vegna slyss á svæðinu en í sumar brenndi ferðakona sig á höndum þegar hún hrasaði, datt út fyrir göngustíg og bar hendurnar fyrir sig. Hún leitaði sjálf á slysadeild.

Óskar segir að allur almennur meirihluti gesta á svæðinu fari eftir aðvörunum. Það séu helst atvinnuljósmyndarar, gjörningslistamenn og aðrir listamenn sem telja sig yfir það hafna að fara eftir reglum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert