Verklagsreglum ekki fylgt

Grindhvalir skornir á Snæfellsnesi um helgina.
Grindhvalir skornir á Snæfellsnesi um helgina. Alfons Finnsson

„Ég tel að það sé augljóst að verklagsreglum hafi ekki verið fylgt,“ segir Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir, um aðgerðir í fjörunum við Rif á Snæfellsnesi og Bug við Ólafsvík um helgina eftir að tugi grindhvala rak upp í fjörurnar.

Eftir að hvalina rak á land hófust nokkrir handa við að skera kjötið af hvölunum, þrátt fyrir að vonskuveður væri á svæðinu. Fleiri bættust í hópinn á sunnudeginum og fóru margir heim með kjöt í búið.

Tekið verði á því ef dýrin hafi verið aflífuð á rangan hátt

Samkvæmt verklagsreglum um aðkomu opinberra aðila þegar hvali rekur á land, ber þeim sem koma auga á hvalinn að hafa samband við lögreglu sem tilkynnir strandið í kjölfarið til nokkurra aðila og stjórnar aðgerðum á vettvangi.

„Við fengum ekki tilkynningar fyrr en seint og um síðir,“ segir Sigurborg. Hún segir að atburðarrás helgarinnar liggi ekki fyrir sem stendur, en unnið sé að ganga- og upplýsingaöflun vegna málsins.

Róbert Arnar Stefánsson, líffræðingur hjá Náttúrustofu Vesturlands, gagnrýnir aðgerðir á vettvangi um helgina í Morgunblaðinu í dag. Þar segir hann meðal annars að óvíst sé hvort dýrin sem skorin voru á laugardeginum hafi verið dauð. Skýrt er kveðið á um hvernig aflífa skuli hvali í aðstæðum líkt og þeim sem sköpuðust um helgina í verklagsreglum.

„Ef það kemur í ljós að dýr hafi verið rangt aflífuð, þá verður að taka á því,“ segir hún en lög kveða á um að aflífa skuli dýr með skjótum og sársaukalausum hætti. „Ef grunur leikur á að lög hafi verið brotin, þá beinum við málinu til lögreglu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert