Ráðleysi ríkisstjórnarinnar algert

Katrín jakobsdóttir og Árni Páll Árnason stinga saman nefjum á …
Katrín jakobsdóttir og Árni Páll Árnason stinga saman nefjum á Alþingi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við þurfum ekki ríkisstjórn sem eyðir öllu afli sínu í að þjóna fámennri forréttindastétt. Við þurfum ríkisstjórn sem treystir sér til að nýta tækifærin, opna nýja útflutningsmarkaði og leggja allt kapp á að byggja upp fjölbreytt atvinnulíf og almenna velsæld,“ sagði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, í umræðum á Alþingi í dag um munnlega skýrslu forsætisráðherra um störf ríkisstjórnarinnar.

Árni Páll fagnaði ummælum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra um aukið samstarf við stjórnarandstöðuna en sagði hins vegar lítið hafa orðið af slíku. Þannig hefði ekkert verið leitað eftir slíku samstarfi varðandi skuldavanda heimilanna þrátt fyrir ósk stjórnarandstöðuflokkanna um það. Það horfði öfugt við frá tíð fyrri ríkisstjórnar þar sem þverpólitísk sátt hefði verið um alla þætti skuldamálanna.

Árni sagði Íslendinga lifa viðsjárverða tíma, einkum vegna þess að til staðar væri heimatilbúinn vandi. Sakaði hann ríkisstjórnina um að hafa verið iðna við að skapa eigin vandamál með yfirlýsingum sínum og framgöngu. Lánshæfismat landsins hefði lækkað vegna þess að ekki hefði verið sýnt fram á það hvernig væri hægt að standa við kosningaloforð í skuldamálum og ríkisfjármálum með ábyrgum hætti.

Ennfremur héldi Seðlabankinn að sér höndum í vaxtamálum af sömu ástæðu, væntingavísitalan lækkaði og aðilar vinnumarkaðarins treystu sér ekki til að gera langtímakjarasamninga vegna þess að þeir vissu ekki hvert ríkisstjórnin ætlaði. Bólur væru að myndast á markaði sem ættu eftir að springa. Sagði hann ráðleysi stjórnarinnar algert sem kæmi víða fram og meðal annars í framgöngu hennar varðandi umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert